Ég var búin að rækta í einhver ár þegar það rann upp fyrir mér að jafn mikill tími fór í snúninga eins og í verkin sjálf. Ég var alltaf á hlaupum eftir verkfærum sem ég hafði lagt frá mér hér eða þar og gat ekki fundið aftur. Dreymdi um körfukassa eins og ég hafði séð breskar hefðarfrúr í kvikmyndum bera á armi sér, þegar þær voru snyrtilega að sinna rósunum og halda uppi gáfulegum samræðum við hinar ýmsu söguhetjur. Reyndi að koma mér upp svona kassa og áhaldasvuntu en það gekk ekki. Ég lærði þó að beita sjálfa mig nokkuð ströngum aga. Smáverkfærin og klippurnar eiga sér sinn stað og þangað skulu þau fara strax að verki loknu. Það er orðið eins mikilvægt og verkið sjálft og sparar þó tíma – nóg að þurfa að leita að gleraugunum.

Einnig lærði ég að klára það sem ég hafði byrjað á. Það var erfitt. En það borgaði sig betur að gera minna og klára það heldur en að byrja á mörgu og hafa alla enda lausa. Þetta er þó ekki mitt eðli. Ég les yfirleitt margar bækur í einu og les alls ekki bók frá upphafi til enda heldur byrja ég oft fremst, tek svo endinn, og ef mér líkar hann vel enda ég á að lesa miðjuna. Af hverju er þá svo nauðsynlegt að klára útiverk? Ég held orsökin sé sú að það er svo erfitt að muna hvar maður var eða hvað maður var að gera þegar komið er að verkinu aftur. Ef það fer að rigna geta liðið einhverjir dagar þangað til viðrar fyrir útiverk næst, eða önnur hugðarefni kalla. En klárað verk er klárað verk og ef verkfærin eru á sínum stað er hægt að nálgast næsta viðfangsefni þegar vel stendur á.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Mynd: Garðyrkjuáhöld Hildar Hákonardóttur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
July 31, 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að elta sjálfan sig“, Náttúran.is: July 31, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/elta-sjlfan-sig/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: