Hvönn
Á hinum Norðurlöndunum ber hvönnin þetta sama nafn. Latneska heitið á ætihvönn er angelica archangelica, eða erkiengilsjurt. Hér á landi var hún gjarnan kölluð erkihvönn. Hvað norræna nafnið táknar er ekki vitað. Hallgerður Gísladóttir hefur það eftir heimildarmönnum Þjóðminjasafnsins að „rætur hvanna, sem yxu undan sól, væru sætar en ef hvönnin óx á móti sól, áttu þær að vera rammar“. Þetta er líklega gömul speki því í Grasnytjum Björns Halldórssonar er útlistað hvernig best sé að koma sér upp hvanngarði heima við bæ. Björn segir að taka eigi ungar rætur milli veturnátta og jólaföstu og planta þeim á rökum stað í móti norðri, þekja með mold svo nái þumlungi yfir efri endann, tyrfa svo yfir og hreyfa ekki við þessu fyrr en næsta vor. Björn vill endurnýja hvannirnar á sjö til átta ára fresti með ungum fjallahvönnum og segir þær geta vaxið í 4 ár án þess að hlaupa í njóla. Svona hefur verið farið að fyrir ævalöngu, þegar tilraunir með nytjaplöntur hófust, en þessi lýsing er nánast einsdæmi hér á landi.
Hvönn er svolítið beisk fyrir matarsmekk nútímamanna. En við missum svo mikið úr bragðflórunni ef við göngum fram hjá beisku jurtunum. Það sem er tungunni beiskt er maganum sætt og einnig er því öfugt farið – segir erlent máltæki. Samt þarf að gæta sín vel því hvönn er mjög bragðsterk og hentar því betur sem kryddjurt og heilsumeðal en grænmeti, einkum meðan verið er að venjast henni. Það þurfti hugrekki til þegar frumkvöðlarnir í Grænu smiðjunni í Hveragerði réttu gestum sínum þurrkaða hvannarótarbita, eins og þeir væru brjóstsykur, og buðu þeim að tyggja. Nú hefur færst í vöxt að matgæðingar noti hvönn til matar og fleiri og fleiri uppskriftir líta dagsins ljós.
Hvannaleggir sem forréttur
Hvannastöngla má nota hráa í forrétti. Best er að þeir séu ungir en þó það stórir að hægt sé að fylla þá. Þá má skræla ef það er betra. Svo eru þeir klofnir og fylltir með einhverju gómsætu eins og sætum, krydduðum rjómaosti til að skapa samspil milli þess beiska og sæta. Svo má nota saltan kavíar úr túpu og þá er komið samspil á milli þess beiska og salta. Leggirnir eru bornir fram, skornir í litla bita. Sömuleiðis má borða þá með harðfiski og smjöri og sölvum til að hafa eitthvað rammíslenskt á borðum, þegar það á við, og þess vegna hafa hvannarótarbrennivín með. Svo má steikja leggina eina sér eða steikja þá með lauk eins og krydd.
Hvannablöð í brauði
Niðursneidd hvannablöð má hafa eins og krydd í brauðuppskriftir og smakkast vel. Hvönn fer ágætlega með öllum kornmat. Það er sérlega skemmtilegt á vorin að baka hvannabollur en einnig má nota blöðin þurrkuð og mulin í brauð árið um kring. Það má líka stinga smá hvannarblaði inn í fyllt horn. Bragðið er ánægjulegt, svolítið miðaldalegt eins og ómur af taktföstum og hvellháum hljóðfærum.
Hvönn hefur alla tíð haft orð á sér sem lækningajurt, hún sé góð fyrir blóðrásina, bæti meltingu og vinni gegn gigt. Bjarni Arngrímsson fer lofsamlegum orðum um hvannarót og af þeirri ástríðu að hann er varla að skrifa upp eftir öðrum. Hann vill tyggja rótina og láta hana liggja í munni sér. Það á að fá sér bita og byrja að tyggja að morgni dags og halda áfram fram eftir degi. Þá eyðir hún gömlum hósta, linar síðusting, brjóstveiki, eyðir vindi, drepur orma og styrkir maga.
Á síðustu árum hefur Háskóli Íslands hafið rannsóknir á henni og orðrómurinn um lækningagildi hennar styrkst til muna. Farið er að framleiða úr henni urtaveig, seyði gegn krabbameini og hún kölluð ginseng Norðurlanda.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Grafík: Hildur Hákonardóttir.
Ljósmyndin er af Ætihvönn [Angelica archangelica]. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvönn“, Náttúran.is: July 29, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/06/hvnn/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 6, 2007
breytt: Jan. 1, 2013