Hjá þeim sem búa við sjávarsíðuna hlýtur skarfakál að tilheyra vorjurtunum. Það er helst borðað hrátt enda er í því mikið af C-vítamíni og það er afar hressandi á ferðalögum ef kosturinn er mest pakkamatur. Nafnið er líklega tilkomið af því að það læknar skyrbjúg eða scurvy á ensku en ekki af því að það eigi eitthvað sameiginlegt með skarfinum.5 Skarfakál hefur sérkennilegt bragð, eins og tvö brögð í einu. Það er beiskt en þó öðrum þræði súrt, en beiska bragðið hefur alltaf yfirhöndina, eða er það rammt? Skarfakál hefur oft verið flutt heim í garða en það mistókst hjá mér svo ég hef ekki mikla reynslu af því að nota það í eldhúsinu. Ég ímynda mér þó að ég hefði það með brauði og reyktum silungi og eggjum. Skarfakál er svo ríkt af C-vítamíni að það er varla að nokkur tími að sjóða það en það má nota eins og grænkál.

Helga Sigurðar stingur upp á því að saxa það fínt og hnoða saman við smjör. Með þessu má smyrja brauð eða hafa sem viðbit með fiski. Ný uppskrift mælir með að leggja skarfakál og gjarnan fáfnisgras með nýjum þorski og vefja síðan hvort tveggja inn í njóla og sjóða létt í mysu.6 Samkvæmt gömlu húsráði á að láta vín standa á skarfakálsblómum í 3 mánuði. Ef sopið er síðan af víninu á morgnana styrkir það brjóst og maga og eyðir vindi og andremmu. Svona uppskriftir samsvara náttúrlega urtaveigum í dag.

Sveppir, söl og ber eru farin að þroskast fyrr en áður og góða veðrið að haldast lengur. Þó geymum við þessar jurtir til næstu árstíðar, haustsins.

Ljósmynd: Skarfakál, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
June 25, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Skarfakál“, Náttúran.is: June 25, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/skarfakl/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: June 25, 2014

Messages: