Sumarið
Sólin og Vetrarbrautin ferðast um himingeiminn. Á meðan snúast jörðin og pláneturnar um sólina á mismunandi hraða. Eftir jafndægur á vori fer jörðin að þoka sér fram fyrir sólina eftir sínum sporbaug. Vegna möndulhallans er sumar á norðurhveli þegar jörðin er stödd fyrir framan sólina. Að vita að við erum fyrir framan sólina er svolítið eins og að fá fréttirnar fyrstur, það eykur á kraft sumarsins ef maður leiðir hugann að því.
Kúrandi norður undir heimskautsbaug í kaldri miðnætursólinni reynum við að lifa í takt við miklu stærri þjóðir, þar sem jafndægratilfinning ríkir svo að segja árið um kring og árstíðanna gætir minna. Vel fram yfir miðja síðustu öld héldu landslagsmálararnir út á land þegar sumarið gekk í garð, út í guðsgræna náttúruna til að afla sér myndefna og fanga birtuna. Þeir sýndu svo afraksturinn þegar haustaði. Málverkið varð þannig að nokkurs konar uppskeru. Að sýna málverk á miðju sumri tíðkaðist ekki, alveg eins og maður klæddi sig ekki í svart og brúnt saman og heldur ekki grænt og blátt og alls ekki í fjólublátt, ef maður var rauðhærður. Sýningar voru árstíðabundnar, líka leiksýningar og tónleikar og bókaútgáfa fór fram á haustin. Það er ekki hægt að segja að menningarlífið hafi legið niðri yfir sumartímann, réttara að orða það svo að á sumrin fór gerjunin fram en afraksturinn kom fyrst í ljós með haustinu. Svo hélst það í hendur þegar farið var að stýra ræktun með rafmagni og aðkeyptum hitagjöfum að sólarbirtan hætti að vera hinn afgerandi aflvaki og uppspretta myndlistarmannsins. Hann glímir nú alveg eins við að halda ljósahátíðir að vetri til með það fyrir augum að leysa upp myrkrið. Náttúran orðin svo margræð að allt er náttúra, líka ónáttúran.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Mynd: Smjörgras með sýnilegu þurru eldra smjörgrasi frá fyrra ári. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Sumarið“, Náttúran.is: July 14, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/sumari/ [Skoðað:Oct. 7, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: July 8, 2013