Steiktar fíflarætur
Snemma á vorin má taka litlar fíflaplöntur [Taraxacum officinale] í heilu lagi úr matjurtagarðinum ef fífillinn hefur sáð sér, saxa þær og steikja í olíu eða smjöri og hrista út á svolítið af sojasósu og ögn af rjóma. Gervikaffi er unnið úr þurrkuðum, brenndum fíflastönglum. Fíflastöngla má borða með því að byrja ofan frá og best að hafa fjóra í einu. Þeir eru þá remmulausir, næstum sætir, og þykja vinna gegn sykursýki en þá þarf að borða tíu stykki á dag. Þegar fíflar eru komnir á biðukollustigið má nota stönglana í salat, segir Eggert Ólafsson.
Sem lækningajurt eru fíflar frægir fyrir að hreinsa lifrina, einkum rótin. Blöðin eru líka hreinsandi en vinna meira með nýrunum. Á vorin þykir ágætt fyrir þá sem þjást af gigt að saxa eina eða tvær litlar plöntur, bæði rót og blöð, setja í stóran bolla af sjóðandi vatni og seyða í 15 mínútur, drekka síðan 1/2 bolla bæði kvölds og morgna í átta vikur. Gott fyrir þá sem hafa fengið fífil í garðinn eða matjurtabeðin og þurfa að grafa upp smáar plöntur að reyna að hafa gagn af þeim og fá eitthvað hollt og ferskt. Margir mæla með því að neyta fífla, þegar verið er á hreinsunarföstu, einnig þykja þeir vinna gegn sveppasýkingu. Ræturnar má svo hafa í brauð.
Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur.
Myndin er af túnfíflum [Taraxacum officinale]. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Steiktar fíflarætur“, Náttúran.is: March 30, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/05/24/steiktar-fflartur/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 24, 2007
breytt: March 30, 2014