Auður Capital kaupir helmingshlut í Íslenska gámafélaginu
Í frétt á vef Íslenska gámafélagsins í dag segir;
„Auður I fagfjárfestasjóður hefur keypt nýtt hlutafé í Íslenska gámafélaginu og eignast helmingshlut í félaginu. Með þessum kaupum hefur sjóðurinn alls fjárfest fyrir um 3 milljarða króna og er fullfjárfestur.
Íslenska gámafélagið starfar á sviði sorphirðu fyrir fyrirtæki og sveitarfélög og veitir tengda þjónustu s.s. ráðgjöf, heildsölu, endurvinnslu og útflutning á endurunnu sorpi. Meðal annarrar starfsemi er leiga á tækjum, metanbreytingar og fjölbreytt þjónusta við fyrirtæki og sveitarfélög. Íslenska gámafélagið hefur hlotið Kuðunginn, umhverfisverðlaun Umhverfisráðuneytisins og hefur fengið viðurkenningu VR síðustu þrjú ár, þar af sem fyrirtæki ársins tvö ár í röð. Starfsmenn eru alls 240 og fyrirtækið er með starfsstöðvar á 13 stöðum um allt land. Forstjóri er Jón Þ. Frantzson stofnandi félagsins.
Auður I er fagfjárfestasjóður sem fjárfestir í hlutabréfum óskráðra fyrirtækja. Rúmlega 20 fagfjárfestar koma að sjóðnum, þar á meðal flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Sjóðurinn á hlut í 8 félögum, þ.á.m. Ölgerðinni, Já og Securitas. Auði I er stýrt af Auði Capital sem er verðbréfafyrirtæki með starfsleyfi frá FME.“
Auður Capital á einnig ráðandi hlut í félögum eins og; Lifandi markaði (3 heilsuveitingastaðir og 3 heilsuverslanir), Grænum kosti og Yggdrasil heildsölu svo greinilegt er að félagið hefur mikinn áhuga á fjárfestingum í grænni starfsemi á Íslandi.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Auður Capital kaupir helmingshlut í Íslenska gámafélaginu “, Náttúran.is: Jan. 8, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/01/08/audur-capital-kaupir-helmingshlut-i-islenska-gamaf/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.