Er ekki kominn tími tími að við berum saman og tengjum tvö viss grundvallarhugtök varðandi ferðamenningu hér á Íslandi?

Annars vegar er ég að tala um hugtakið ferðafrelsi sem virðist hafa fest rótum í huga viss hóps sem vill halda fast í þá hugmynd að frelsi til að ferðast eigi að byggjast á hugmyndum um ferðamennsku eins og voru hér á árunum 1950-1980. þ.e. árin sem núverandi ferðahefð var að skapast og ekkert megi breytast. Með breyttu umhverfi, t.d. auknum fjölda þurfum við líka að fara að opna á umræður um orðið FERÐAVIRÐING.

En þurfum við ekki að skoða þetta mál betur og í stærra samhengi og þá sérstaklega í ljósi þeirrar þróunnar sem orið hefur í ferðamennsku á liðnum áratugum. Auðvitað viljum við öll halda sem lengst í gömlu ferðarómantíkina frá sjötta áratug seinustu aldar. Jeppinn var ekki orðinn almenningseign. Meira að segja var stórmál að fá leyfi til að eignast slíka kostagripi lengi vel. Bændur, héraðslæknar, sýslumenn og „menn sem þekktu rétta menn” komust í þann hóp sem heimild hafði til að eignast jeppa. Sem betur fer varaði þetta tímabil ekki lengi svo að fljótlega fór jeppinn að verða almenningseign þó svo að sú þróun hafi lengi hægari en sumir telja að hafi verið. Slóðarnir voru fáir, hlykkjóttir og telji einhver vegina vera grófa í dag þá skulum við tala um grýtta slóða á þessum bernskuárum íslenskrar ferðamennsku. Örfáir voru á ferðinni. Það fáir að frumkvöðlarnir fengu á sig kenninöfn framan við eiginnöfn sín í anda fjallaferðanna. Ófáir skálar voru nefndir eftir frumkvöðlunum, kennileiti, leiðir og menn fengu á sig goðsagnakenndan sagnablæ við það að hafa fundið bílfær vöð yfir fram að því ófærar beljandi jökulár sem í dag knýja erlendar málmbræðslur. Þeir fáu sem hittust á fjöllum þekktust örugglega. Ferðamátarnir voru fáir enda úrval af búnaði og tækjum lítið. Sömu Gefjunarskórnir voru notaðir til skíðaferða á veturna, fjallaferða á sumrin og fjárleita á haustin. Þessi ár voru sælutími sem erfitt hefur verið að kveðja þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður í dag. Sagnir af þessum mönnum bárust út og fleiri vildu kynnast þessum undraheim, sem auðvitað var eðlilegt í ljósi þessara heillandi ferðasagna og dulúðin var að losna af óbyggðunum sem fram að því höfðu verið álitnar einkalönd útilegumanna og ferðir þar um höfðu verið farnar af illri nauðsyn fremur löngun. Leiðir sem styttu ferðir á milli landshluta, hægt var að komast upp fyrir illfæra jökla og árnar sem frá þeim runnu. Annað var ekki þangað að sækja um aldir.

Loks hafði þjóðin lært að meta óbyggðirnar sem fram að þessu höfðu verið ógn og hulduheimur. Alla langaði á fjöll og með bættum efnahag, aukinni jeppaeign og síðast en ekki síst fleiri möguleikum í ferðamennsku með bættum búnaði, varð á örfáum áratugum krökkt af fólki á hálendinu. Ekki aðeins hafði dýrð þess spurst út á meðal landsmanna, heldur voru erlendir ferðamenn farnir þyrpast hingað í hundruða þúsunda tali til þess eins að fá að „njóta kyrrðarinnar”. Þegar allur þessi fjöldi er saman kominn á fremur litlu svæði sem aðeins greiðfært um í nokkrar vikur á ári til að njóta kyrrðar og einveru, er kyrrðin að sjálfsögðu horfin. Einveran var tálsýn og óspillt útsýnið rofið af raflínum, orkuverum, vegum og næsta ferðamanni sem hugsanlega kom hingað á annan hátt en þú. „Þér finnst þú rétthærri“. Annað hvort komst þú gangandi og hafðir því fyrir ferðinni með miklu erfiði, eða þá að þú komst hingað á nýja rándýra jeppanum sem þú vannst fyrir með miklu erfiði. Bæði viðhorf jafn rétthá en eiga því miður ekki alls staðar samleið. Báðir hópar tala niðrandi um hinn hópinn í sjálfsánægju vegna síns ferðastíls. Einn vill hratt og komast á marga staði á stuttum tíma meðan annar vill fara hægt og njóta kyrrðarinnar. Báðir þurfa þó ýmist að stíga úr bílnum og ganga eða fara upp í bíl einhvern tíma í ferðinni eða að komast á uypphafsstað göngu akandi.. Skoðanir skarast en hugmyndir ekki. Á milli þessara hópa og ýmissa annarra, nánast jafn margra og ferðamöguleikarnir eru er ört vaxandi gjá. Meginskilin liggja á milli sk. Göngumanna og mótormanna. Annar hópurinn vill endurheimta kyrrðina sem eitt sinn ríkti á meðan hinn vill halda því frelsi sem hann hefur ávalt talið hér hafi ríkt. Hér eru illsættanleg viðhorf sem finna þarf lausn og sátt um. Því miður, þá er kominn tími á vissan aðskilnað í þeim víðáttum sem við töldum óendanlegar fyrir ekki svo löngu síðan.

Það mál þurfum við að leysa á friðsamlegn hátt og án öfga.Lykilinn þeirri sátt er sk. ferðavirðing, sem við þurfum að tileinka okkur áður en fullnaðarlausn fæst. Það er nefnilega í lagi að við séum ósammála en sáttina þarf að finna.

Hér eru nokkur dæmi um það sem ekki er ferðavirðing:

  • Göngumaður arkar eftir miðjum þjóðvegi og tefur umferð.
  • Mótorhjólamaður ekur eftir göngustíg í Heiðmörk.
  • Jeppamaður ekur eftir fjölfarinni slóð vélsleðamanna.
  • Vélsleðamaður ekur eftir troðnum brautum á skíðasvæði.
  • Göngumenn setjast niður og snæða í vélsleðabraut.
  • Hestamaður böðlast yfir þrönga göngubrú sem ekki er ætluð hesti.
  • Mótorhjólamaður kemur í hlað á skála um miðja nótt. Þenur tækið rétt við skálann.
  • Göngumaður bölsóttast yfir vélahávaða frá nærliggjandi vegi, en hafði samt valið leiðina.

Þetta eru bara örfá dæmi um skort á Ferðavirðingu. Nokkuð sem er til staðar í hinum siðmenntaða heimi. Ég hef ekki heyrt annars staðar af árekstrum eins og hér. Hvar annars staðar finnst sleðamönnum sjálfsagt að aka inn á skíðasvæði og öskra svo „ Skert ferðafrelsi“ ef þeir eru beðnir um að sýna tillitssemi? Hér leika menn sér að því að eyðileggja aðstöðu einnar íþróttar með ástundun sinnar. Allir þurfa að líta í eigin barm og gefa eftir að einhverju leiti. Það er fyrir löngu kominn tími á að afmarka vissa hluta landsins fyrir ákveðin form útivistar en engu að síður geta menn svo átt samleið víðast hvar í fullri sátt.

Ljósmynd: Á ís, Árni Tryggvason.

Birt:
Feb. 7, 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Ferðafrelsi og ferðavirðing“, Náttúran.is: Feb. 7, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/02/07/ferdafrelsi-og-feradvirding/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 10, 2013

Messages: