Þakkirnar eða íbeiska bragðið
Heit bolla með krossi eða hot cross bun, segir í enskri barnaþulu. Ég hef alltaf séð fyrir mér að kross væri ristur í deigið á bolludagsbollurnar og þær borðaðar ný bakaðar og heitar. Bátakökurnar frönsku styrktu þessa trú mína. Kyndilmessan 2. febrúar er haldin til að minnast þess að sól er farin að hækka á lofti. Hún er ein af átta hátíðum sem haldnar voru með sex vikna millibili árið um kring á meðal fjölmargra heiðinna þjóðflokka. Þær voru kyndilmessa, jafndægur á vori (páskar), maíhátíð (krossmessa á vori), sumarsólstöður (Jónsmessa), smalareið (verslunarmannahelgi), jafndægur á hausti (réttardagar og Jörvagleði), minning hinna látnu (allraheilagra messa eða hrekkjavaka) og vetrarsólstöður (jólin).
Á kyndilmessunni er líkneski hinnar dökklituðu meyjar, the Black Virgin, sem oft var komið fyrir í neðanjarðarhvelfingu undir kirkjunum, heiðrað og við hátíðleg tækifæri kann það að hafa verið borið út og síðan í skrúðgöngu ýmist um göturnar eða síðar um kirkjuna sjálfa, sem tákn þess að vetrinum var að ljúka. Svört Maríulíkneski finnast enn í mörgum kirkjum sunnan frá Spáni og allar götur norður til Póllands og enn víðar. Styttan er yfirleitt gerð úr dökkum viði og dýrkun hennar og saga ber þess merki að þarna sé jarðargyðjan komin að austan þótt María hafi tekið við hlutverki hennar.
Kyndilmessan er einnig hátíð fólksins við sjóinn í Marseilles, sem var sjálfstæð grísk hafnar- og verslunarborg þangað til Júlíus Caesar lagði hana undir sig. Kristni barst þangað snemma en þarna er enn þann dag í dag hægt að skynja hinn forna anda þar sem hverjum og einum er frjálst að tilbiðja sinn guð eða gyðju samkvæmt sínum uppruna, venjum og skilningi á guðdóminum. Þar ægir því öllu saman; jarðargyðjunni í líki svörtu Maríu, frjósemisgyðjunni í líki Maríu Magdalenu og Söru hinni egypsku, átrúnaðargoði Sígaunans.
Því er trúað að María Magdalena og með henni ein eða tvær aðrar Maríur hafi komið á báti Lazarusar frá Fönikíu á flótta undan ofsóknum í kjölfar krossfestingarinnar. Því eru bakaðar ílangar, litlar kökur, navettur, með sérkennilegu bragði eins og beiskar möndlur. Á móti kirkju heilags Viktors, þar sem líkneski svörtu Maríu er geymt, er lítið bakarí og ofninn þar er tveggja alda gamall og uppskriftin að kökunum leyndarmál. Kökurnar eru eins og sverasti karlmannsfingur og skorið er ofan eftir miðjunni svo kakan verður í laginu eins og bátur.
Á kyndilmessunni myndast löng biðröð af fólki á leið heim úr vinnu utan við bakaríið og fjöldi ungmenna hleypur um og afgreiðir því hver og einn vill fá nokkrar tylftir í pokum til að taka með heim. Gegnum íbeiska bragðið, sem sjálft er ógleymanlegt en þó ekki sérlega gott, eigum við svo að minnast flóttans og ferðalagsins yfir hafið og þess að við erum hólpin og besta leiðin til hamingju er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst hér á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Þakkirnar eða íbeiska bragðið“, Náttúran.is: Feb. 23, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/05/akkirnar-e-beiska-bragi/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 5, 2007
breytt: Feb. 23, 2013