Hópur býflugnabænda og nokkur frjáls félagasamtök vestanhafs, þar á meðal Sierraklúbburinn, lögðu í gær fram kæru á hendur Umhverfisstofnun Bandaríkjanna fyrir að grípa ekki til verndaraðgerða vegna þeirrar hættu sem kærendur segja býflugnastofnum stafa af skordýraeitri af flokki neónikótínoíða. Í kærunni er þess m.a. krafist að stofnunin dragi til baka leyfi til notkunar á klóþíanidín og þíametoxam, sem bæði tilheyra þessum flokki eiturefna. Sérstaklega er kært fyrir útgáfu skilyrtra leyfa sem gera framleiðendum kleift að setja ný eiturefni á markað fyrr en ella, en síðustu ár munu tveir þriðju allra nýrra varnarefna í Bandaríkjunum hafa verið sett á markað á grunni slíkra leyfa. Neónikótínoíð hafa verið mikið notuð í Bandaríkjunum síðan um miðjan síðasta áratug og frá sama tíma hafa orðið mikil afföll á býflugnabúum. Dæmi eru um 50% fækkun á síðasta ári einu og sér. Framleiðendur efnanna benda hins vegar á að skaðsemi þeirra hafi ekki verið sönnuð.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Ljósmynd: Býfluga á valurt, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
March 22, 2013
Höfundur:
Stefán Gíslason
Uppruni:
2020.is
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Býflugnabændur kæra Umhverfisstofnun Bandaríkjanna“, Náttúran.is: March 22, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/03/22/byflugnabaendur-kaera-umhverfisstofnun-bandarikjan/ [Skoðað:Oct. 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: