Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 19. mars kl. 15:15 mun Einar Þorleifsson náttúrufræðingur flytja erindið Landnám fugla á Íslandi.
Hrafnaþing er haldi í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð.

Landnám fugla á Íslandi

Miklar breytingar hafa orðið á fuglalífi á Íslandi á 20 öld. Fuglategundum fjölgaði um 21, en jafnframt hættu tvær gamalgrónar tegundir varpi og sú þriðja dó út.

Alls verpa í dag árvisst 78 fuglategundir auk allmargra tegunda er verpa hér óreglulega eða hafa ekki náð að byggja upp stofna. Á fyrri hluta 19. aldar voru aðeins 60 tegundir árvissir varpfuglar.
Hettumáfar, farfuglar að vori

Í fyrirlestrinum verður fjallað um landnám fugla á Íslandi og helstu hugmyndir um ástæður þess. Lengst af hefur hin mikla fjölgun tegunda verið skýrð út frá hlýnandi loftslagi sem vissulega hefur gagnast ýmsum fuglum vel þótt það sé ekki hinn ráðandi þáttur er nýjar tegundir hafa sest að. Með aukinni þekkingu á umhverfisbreytingum af mannavöldum í Evrópu kemur í ljós að þessar breytingar skipta miklu máli í landnámi fugla á Íslandi. Þær breytingar sem orðið hafa á fuglafánu Íslands eiga sér samsvörun um gjörvalla Norður og Vestur-Evrópu. Mannfjölgun, tækniþróun, breytingar í akuryrkju og búfjárhaldi, skógrækt, fiskveiðar, borgmyndun, fóðrun smáfugla og náttúruvernd hafa valdið fjölgun í fuglastofnum tegunda með góða aðlögunarhæfni. Þessar tegundir leita svo nýrra varpstöðva utan aðal heimkynna er stofnar stækka. Ágæt dæmi um slíka fjölgun og útbreiðsluaukningu í Evrópu sem í kjölfarið leiddi til landnáms á Íslandi, er réttu skilyrðin höfðu verið sköpuð þar, er landnám glókolls, svartþrastar, sílamáfs og skógarsnípu. Í lokin verður litið til framtíðar og spurningum velt upp um hvernig þróun í fuglalífi landsins gæti orðið á næstu ártugum.

Hægt er að nálgast upptökur af flestum erindum á Hrafnaþingi frá og með árinu 2011 á svæði Náttúrufræðistofnunar Íslands á samfélagsmiðlinum Youtube.

Ljósmynd: Hettumáfar, farfuglar að vori. Ljósm. Einar Þorleifsson.

Birt:
March 14, 2014
Tilvitnun:
María Harðardóttir „Hrafnaþing - Landnám fugla á Íslandi“, Náttúran.is: March 14, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/03/14/hrafnathing-landnam-fugla-islandi/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: