Ég fékk í pósti athyglisverðan fræðslubækling sem Sólheimar gaf út. Geri ég ráð fyrir að það hafi verið í framhaldi af vistræktarnámskeiði Grahams Bell í Sólheimum árið 1998 og er því einn af fyrstu textum um fræðin á íslensku. Bæklinginn tók Eva G. Þorvaldsdóttir saman, og útskýrir ágætlega meginhugmyndir vistræktar.

Vistmenning (Permaculture)

Eva G. Þorvaldsdóttir tók saman.

Hvað er vistmenning?

Hugtakið “permaculture” var fyrst kynnt af ástralska vistfræðingnum Bill Mollison árið 1978. Það er dregið af “permanent agriculture” og “permanent culture” sem vísar til hringrásar náttúrunnar í ræktun og samfélagsháttum. Vistmenning (permaculture) gengur út á það að byggja upp mannlegt samfélag sem fylgir lögmálum sjálfbærra vistkerfa náttúrunnar.

Grundvallarsjónarmið með vistmenningu er að skapa framleiðslukerfi sem eru í sátt við náttúruna. Lögð er áhersla á fjölbreytta ræktun plantna ásamt húsdýrahaldi til að tryggja fullnægjandi hringrás næringarefna í náttúrunni. Sjálfbært samfélag felur þó í sér ýmislegt fleira en matvælaframleiðslu. Í því felst lífsform þar sem litið er á heildstæðan hátt á allt umhverfi mannsins.

Hornsteinn vistmenningar er virðing fólks fyrir jörðinni og mikilvægi þess að viðhalda auðæfum hennar og frjósemi frá kynslóð til kynslíðar. Væntumþykjan endurspeglast í því viðhorfi að maðurinn hafi einungis afnot af jörðinni en eigi hana ekki.

Ýmsar hreyfingar og samtök hafa verið stofnaðar í kringum hugmyndafræði vistmenningar í Ástralíu, Bandaríkkjunum og Evrópu. Gefnar eru út bækur um vistmenningu, tímarit koma út reglulega og á hverju ári eru haldin námskeið víða um heim. Ýmis samtök tengjast vistmenningu á einn eða annan hátt svo sem alheimssamtök vistvænna samfélaga (Global Eco-village Network).

 “Tengslin milli manns og gróðurs verða að taka á sig trúarlega mynd: þér er borgið ef þú elskar tréð eins mikið og sjálfan þig.”
Hundertwasser

Nokkur einkenni vistmenningar

Náttúran – ný lífssýn: Með vistmenningu er lögð áhersla á að virða náttúruna, unnið er með náttúrunni en ekki gegn henni. Leitað er að tæknilegum lausnum sem falla að hringrás efna í vistkerfum jarðar, gripið er inn í umhverfið en án þess þó að raska vistkerfinu. Vistmenning leitar að lausnum fremur en vandamálum og stuðlar að samvinnu fremur en samkeppni. Vistmenning er heilstæð aðferð til að skapa sjálfbært samfélag sem einkennist af fjölbreyttu lífríki og mannlífi. Í vistmenningu er fólgin ný lífssýn.

Reynsla: Í vistmenningu er þekking og reynsla kynslóðanna virt og metin. Reynt er að sameina í eina heild sjálfbæra framleiðslutækni og landnýtingaraðferðir víðs vegar um heim. Vistmenning getur brúað bilið á milli hefðbundinna framleiðsluhátta og nýrra hugmynda í landnotkun og tækniþróun. Nálgun vistmenning má aðhæfa að mismunandi staðháttum, einstaklingum og menningu.

Landnýting: Vistmenning nýtir land með vistrænum aðferðum sem einnig má beita til viðreisnar á röskuðum vistkerfum. Stuðla ber að endurheimt landgæða með landgræðslu og skógrækt. Nálgun vistmenningu má beita á hvaða vistkerfi sem er óháð ástandi þess. Tilgangurinn með vistmenningu er að nýta sem best samverkandi umhverfisþætti á hverjum stað. Hvatt er til lífrænna framleiðsluhátta þar sem hvorki er notaður tilbúinn áburður né plöntuvarnaefni.

Framleiðsluhættir: Í vistmenningu er byggt á litlum en vel skipulögðum framleiðslueiningum þar sem lögð er áherlsa á nýtingu mannafla fremur en vélvæðingu. Hver einstaklinur á að geta notið sín í samfélaginu.

Vistmenning í framkvæmd

Hugmyndum um vistmenningu má beita í dreifbýli jafnt sem þéttbýli. Aðlaga má lífshætti einstakra heimila, rekstur bóndabýla eða samfélag heilla bæja að sömu hugmyndafræði.

Framleiðslukerfi í landbúnaði sem kenna má við vistmenningu einkennast af skiptiræktun, skiptibeit, samræktun, notkun á lífrænum áburði, safnhaugagerð, yfirborðssáldrun, óhefðbundnum aðferðum í baráttu gegn skaðvöldum, notkun á léttum vélum, ræktun skjólbelta og skógrækt. Horfnir framleiðsluhættir hafa öðlast nýtt líf við breyttar aðstæður.

Margar tæknilegar lausnir hafa komið fram á síðustu árum sem eru hliðhollar sjálfbæru samfélagi svo sem nýting sólar- og vindorku, hreinsun á vatni, vistvænt salerni, endurnýting úrgangs, orkusparnað og húsbyggingar. Einnig hafa verið dregnar fram í dagsljósið lausnir sem tilheyra horfnum framleiðsluháttum.

Námskeið

Fjölmörg námskeið hafa verið haldin um vistmenningu. Inngangsnámskeiðið sem kalla mætti sjálfbæra samfélagsmótun veitir innsýn í hugmyndafræði og útfærslu vistmenningar. Það stendur yfir í 10-14 daga og er bæði bóklegt og verklegt. Tekið er mið af staðháttum þar sem námskeiðið er haldið og reynt að taka dæmi úr nánasta umhverfi. Lögð er áhersla á að fá þátttakendur til að beita hugmyndum um vistmenningu við lausn daglegra vandamála.

 “Ef jörðin er sködduð skaðast synir hennar og dætur. Munið að jörðin tilheyrir ekki manninum – heldur tilheyrir maðurinn jörðinni.” Indjánahöfðingi

Birt:
March 16, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Fræðslubæklingur frá síðustu öld“, Náttúran.is: March 16, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/03/16/fraedslubaeklingur-fra-sidustu-old/ [Skoðað:April 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: March 17, 2014

Messages: