Dr. Dan Laffoley, sérfræðingur í vistkerfum úthafanna, flytur fyrirlesturinn „Hafið, framtíðin sem við viljum“ í sal 105 á Háskólatorgi (HT105) mánudaginn 7. apríl 12.10– 13.10. Laffoley er þekktur fyrirlesari (danlaffoley.com) og hefur verið mikilvægur þátttakandi stefnumótun og umhverfisverndarumræðu í Evrópu og Stóra-Bretlandi undanfarna áratugi, en hann er m.a. helsti ráðgjafi IUCN (International Union for Conservation of Nature) í verkefnum er lúta að verndun úthafanna og heimskautasvæðanna.

Á undanförnum árum og áratugum hefur umræða um verndun lífríkis sjávar fengið æ meiri athygli. Vísindin sýna að álagið á lífríki sjávar eykst stöðugt – ekki einungis vegna vaxandi auðlindanýtingar heldur einnig vegna loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar, mengunar úthafanna og súrefnisþurrðar (hypoxia). Alþjóðasamfélagið hefur reynt að bregðast við með hnattrænum aðgerðum til að bæta stjórn hafsvæða, t.d. með stofnun verndarsvæða (Marine Protected Areas).

Á Ríó +20, umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó de Janeiro í júní 2012, sem haldin var undir yfirskriftinni „Framtíðin sem við viljum“, kom glöggt fram að samfélag þjóðanna verður að herða róðurinn eigi að takast að snúa þróuninni við og koma í veg fyrir frekari hnignun á fjölbreytileika lífríkis sjávar. Áskorunin er stór, en allir hljóta að hafa hag af því að koma hér að máli.

Í fyrirlestri sínum mun Dan Laffoley fara yfir helstu ógnir sem steðja að lífkerfum hafsins, meta þann árangur sem náðst hefur og starfið sem er framundan. Sameiginlegir hagsmunir jarðarbúa eru miklir og mikil framtíðartækifæri felast í því að bregðast við af ábyrgð.

Fyrirlestur Dr. Laffoley er haldinn á vegum Náttúruverndarsamtaka Íslands, Earth101 og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands.

Ljósmynd: Dan Loffoley, af heimsíðu hans.


Birt:
April 2, 2014
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Hafið og framtíðin sem við viljum“, Náttúran.is: April 2, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/04/02/hafid-og-framtidin-sem-vid-viljum/ [Skoðað:Oct. 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: