Vatnið er ásamt sólarjósinu ein af meginundirstöðum lífsins á jörðinni. Þar sem er vatn er mjög líklegt að lífverur sé einnig að finna. Ár og vötn eru þannig lífæðar Jarðarinnar.

Vatnið er í stöðugri hringrás um Jörðina. Vatn gufar upp úr hafinu, myndar ský sem færast yfir land og það rignir, regnið rennur síðan í ám og vatnsföllum til sjávar eða neðanjarðar sem grunnvatn og endar aftur í hafinu.

Ám er venjulega skipt í lindár sem koma beint úr uppsprettum, eru tærar og með jafnt rennsli og gróna bakka, dragár sem myndast úr mörgum smærri lækjum og eru með rofna bakka og hafa breytilegt rennsli eftir árstíðum og síðan má að lokum nefna jökulárnar sem eru gruggugar, beljandi og sem rjúfa bakka og geta verið mjög breytilegar í rennsli.

Stöðuvötn á Íslandi eru yfirleitt mjög tær (olígótrófísk) og sólarljósið nær langt niður í vatnssúluna. Djúp stöðuvötn geta verið lagskipt og er kaldasta lagið neðst. Vatnið á Íslandi hefur alltaf verið mjög tært og gott til drykkjar, en eigi svo að vera til frambúðar þarf að koma í veg fyrir mengun stöðuvatna eins og t.d. Þingvallavatns og Mývatns. Einnig þarf að huga að ástandi grunnvatns, þar sem vatn getur mengast neðanjarðar og er sú mengun þá oft ekki sýnileg.

Rannsóknir á upplifun manna á náttúrunni hafa leitt í ljós að almennt finnst fólki þeir staðir fallegastir þar sem fossa, ár eða stöðuvötn er að finna í landslaginu. Gildi vatnsins er þannig einnig fagurfræðilegt og margir sem njóta þess að vera við vötn og ár, án þess að um beina nýtingu sé að ræða.

Smáar vatnsaflsvirkjanir geta verið umhverfisvænar en almennt eru stórar vatnsaflsvirkjanir ekki lengur taldar vera umhverfisvænar. T.d. eru Bandaríkjamenn núna farnir að rífa aftur niður stór stíflumannvirki og hafa þeir lýst því yfir að fleiri stórar vatnsaflsvirkjanir verði ekki byggðar þar í landi. Uppistöðulón virkjana fyllast smám saman af gruggi og þau eru yfirleitt ekki með gegnumrennsli, þannig að þau geta orðið súrefnisfirrt og er ekki líklegt að í slíku umhverfi þrífist mikið líf.

Samkvæmt vatnalögum er öllum t.d. heimil vatnstaka til heimilisþarfa og bús, þar sem það er landeiganda að meinalausu.

Birt:
April 30, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Ár og vötn“, Náttúran.is: April 30, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/04/30/ar-og-votn/ [Skoðað:April 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 13, 2014

Messages: