Rabarbari er ein flottasta matjurt sem til er. Rabarbarinn er í raun okkar besti ávöxtur. Þetta staðhæfi ég því rabarbarinn er ekki bara stór og mikill heldur er hann sterkbyggður og gefur uppskeru tvisvar sinnum á ári, vor og haust. Duglegir hnausar eru farnir að gefa vel af sér og uppskera má langt fram í júní eða þangað til hann fer að tréna. Í haust kemur svo önnur uppskera sem hentar vel í sultugerðina nema að maður sé í stuði til að gera sultu á vorin. Það er ég ekki en þeim mun duglegri er ég að úbúa alls kyns rétti úr rabarbaranum á vorin.

Eftir bankahrunið, vorið 2009, var þröngt í búi á okkar heimili og þá var rabarbarinn himnasending í orðsins fyllstu merkingu. Hér var boðið upp á rabarbara í hinum ýmsu myndum, daglega, vikunum saman. Þetta var reyndar svolítið rabarbara „overkill“ til lengdar en það var ekki rabarbaranum að kenna.

Hér er uppskrift frá mömmu að rabarbaraköku eða pæi sem allir elska og ekkert mál er að gera:

  • 400 g rabarbari
  • 1/2 dl hveiti eða spelt
  • 2 egg
  • 2 1/2 dl sykur eða hrásykur (já ég veit, en það þarf að vinna á súrunni í rabarbaranum)

Eggin og sykurinn eru þeytt saman, hveiti/spelt hrært varlega út í, svo kemur niðurskorinn rabarbarinn.
Sturtað í í eldfast mót.

Ofan á kemur:

  • 1/2 dl púðursykur
  • 50 g smjör
  • Kókos að smekk

Myljið saman smjörið og púðursykurinn, bætið kókos í og stráið yfir rabarbarablönduna í eldfasta forminu.
Bakist í 45 mín. við 180°.
Látið kólna smá og berið fram með þeyttum rjóma eða heimagerðum vanilluís.

Ljósmynd: Nýuppskorinn rabarbari að vori, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

 

 

Birt:
June 13, 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rabarbaratíðin er runnin upp“, Náttúran.is: June 13, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2014/05/17/rabarabaratidin-er-runnin-upp/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 17, 2014
breytt: June 13, 2015

Messages: