Virkjanasinnar fá hreinan meirihluta í sveitastjórnum utan Reykjavíkur
Virkjanasinnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fá hreinan meirihluta næstum allsstaðar utan Reykjavíkur. Grænt ljós er gefið á virkjanaframkvæmdir um allt land. Umhverfissjónarmið mega sín lítils og verða undir.
Þetta eru stóru fréttirnar úr kosningunum í gær. Með hverjum Samfylking myndar meirihluta í Reykjavík er smámál miðað við virkjanamálin.
Kaupfélag Skagfirðinga og Framsóknarflokkurinn fær hreinan meirihluta í Skagafirði. Kaupfélagsstjórinn hefur lýst yfir skýrum vilja til að virkja Héraðsvötnin og núna hlýtur hann að sæta lagi og setja Villinganesvirkjun af stað.
Virkjanaglöð ríkisstjórn situr í Stjórnarráðinu, tilbúin að finna erlent lánsfé sem hægt er að nota til framkvæmda. Lánstraust Íslands er að batna og það er að verða auðveldara að nálgast lánsfé.
Þessi þróun hlýtur að vekja ákveðinn ugg meðal þeirra sem vilja vernda náttúruna. Línulagnir eru boðaðar um Reykjanes, og þrjár kísilverksmiðjur fyrirhugaðar.
Landsvirkjun hefur lýst því yfir að Hvammsvirkjun sé næst á dagskrá.
Því miður eru vindmylluverkefnin ekki komin svo langt að hægt sé að skipta vindmyllubúgörðum út fyrir aðra virkjunarkosti.
Virkjanasinnar vilja heldur ekki bíða lengur.
Það sem er í húfi sést best í Lagarfljóti sem hefur núna verið algjörlega rústað af Kárahnjúkavirkjun. Landið sem fór undir Hálslón var einnig vel gróið og Kringilsárrani var undurfagur.
Núna á að sökkva því sem eftir er af Þjórsársvæðinu undir gruggug uppistöðulón sem ætíð munu leka og e.t.v. valda jarðskjálftum.
Allt í nafni aukins hagvaxtar, græðgi og aukinnar vinnu fyrir búkollur og gröfustjóra.
Ekkert er hugsað um komandi kynslóðir, ekkert er hugsað til þess að virkjanakostir eru takmarkaðir og skilja verður eftir einhverja möguleika fyrir komandi kynslóðir.
Nei, öllu skal slátrað og fórnað á altari hagvaxtarins og hagfræði nýfrjálshyggjunnar.
Nú verða allir þeir sem vilja vernda náttúruna að láta af misklíð sín á milli, standa saman og koma lífríkinu til varnar.
Ég get ekki orðað tilfinningar mínar nema í ljóði:
Hengillinn sefur
Sundurskorinn
Eldspúandi dreki.
Brennisteinsvetnið
Leggur yfir Þingvallavatn
Og þjóðskáldið
Byltir sér andvaka
Í gröfinni.
Við Arnarfell
Er bergrisinn örendur,
Öllu hefur verið fórnað,
Árvatnið beislað,
Lón sem fyllast af gruggi,
Súrefnisfirrt og dauð
Urriðafoss horfinn
Auðn og sviðin Jörð.
Gröfustjórinn keypti
Sér Lexus,
Ráðherran keypti
Sér Mercedes Benz.
Ég sit og horfi
Á síðustu englana hverfa
Burt úr heiminum.
Töfra landsins
Fjötraða
Og ímyndunaraflið dautt.
Ekkert eftir…
Enginn trúir
Lengur
Á neitt heilagt
Nema
Sjálfan sig.
Ísland deyr fyrst.
Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
M.Sc. í umhverfisvísindum og M.A. í þýðingafræði
Ljósmyndir: Gróður og jarðmyndanir sem fóru undir Hálslón og eru okkur glataðar að eilífu.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Virkjanasinnar fá hreinan meirihluta í sveitastjórnum utan Reykjavíkur“, Náttúran.is: June 1, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/06/01/virkjanasinnar-fa-hreinan-meirihluta-i-sveitastjor/ [Skoðað:Sept. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 6, 2014