Ákvörðunarferlar sem eiga að tryggja jafnvægi milli umhverfissjónarmiða og sjávarútvegs í Norðursjó eru flóknir og óskilvirkir og hafa neikvæð áhrif bæði á umhverfi hafsins og ríkisfjármálin. Í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni er kallað eftir skilvirkara ferli.

Alþjóðlegt samstarf um sjávarútveg og umhverfisvernd í Norðursjó er tímafrekt, dýrt og óskilvirkt. Með nýju, skilvirkara ferli væri hægt að spara tíma, peninga og aðrar auðlindir og um leið bæta samskiptin milli hagsmunaaðila þannig að bæði vistkerfin og ríkisfjármálin hafi gagn af. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem hugveitan Nordic Marine Think Tank (NMTT) hefur tekið saman fyrir Norrænu ráðherranefndina.
Flókið ákvörðunarferli

Í tengslum við gerð skýrslunnar var gerð rannsókn á alþjóðlegu samstarfi sem á að tryggja jafnvægi milli umhverfissjónarmiða og sjávarútvegs kringum fiskimiðin Doggerbanka sem eru í Norðursjó um það bil 100 km frá ströndum Bretlands. Við þennan sandfláka eru heimkynni margra af þeim fiskistofnum sem finnast í Norðursjó og hann hefur því mikla þýðingu fyrir heildarvistkerfi Norðursjávar.

Ákvörðunarferlið sem kortlagt var í rannsókninni þarf bersýnilega að gera skilvirkara og skýrara. Í stað þess að ákvörðunarferlið sé samhæft á alþjóðavettvangi frá upphafi hefst það í hverju einstöku landi með stefnumótun í umhverfismálum sem hagsmunaðilar á því sviði koma að. Eftir það fer ferlið í nýjan farveg þar sem opinber yfirvöld sem fara með sjávarútvegsmál og hagsmunaaðilar sem þeim tengjast taka málið til meðferðar.
Þörf á betri samhæfingu og þekkingargrunni

Á grundvelli rannsóknarinnar leggja skýrsluhöfundar fram ýmsar tillögur um hvernig hægt sé að gera ferlið skilvirkara.

Alþjóðleg samhæfing
Bæta þarf samhæfinguna milli landanna og sjá til þess að hún hefjist eins snemma og hægt er í svæðisbundnum samtökum. Jafnframt þarf að nýta betur alþjóðlegar stofnanir sem búa yfir þekkingu á þessu sviði og búa til sameiginlegan þekkingargrunn sem felst í sameiginlegum aðgangi að nýtilegum gagnagrunnum og samhæfingu gagnagreiningar.

Innleiðing skilvirkara ákvörðunarferlis
Skipta þarf ferlinu upp í fjögur þrep: 1) mótun pólitískra stefnumiða; 2) vísindaleg ráðgjöf; 3) aðkoma hagsmunaaðila og 4) samkomulag um aðgerðir. Jafnframt þarf að komast að samkomulagi um skýra tímaramma og kerfi til að tryggja að staðið sé við þá tímafresti sem samþykktir hafa verið.

Aðkoma hagsmunaaðila
Breyta þarf ferlinu til að auka þrýsting á þátttakendur um að ná fram samkomulagi. Hagstætt væri ef hagsmunaaðilar gætu komið að málinu á þeim vettvangi sem þegar er til staðar, það er að segja í gegnum svonefndar ráðgjafarnefndir (Advisory Councils) sem komið hefur verið á fót í sjávarútvegi.

Alþjóðleg löggjöf
Grundvöllur skilvirks ákvörðunarferlis á að byggja á alþjóðlegri samræmingu stefnu um málefni hafsins. Innan Evrópusambandsins er unnið að þessum málum af fullum krafti þannig að nýtt ákvörðunarferli getur verið hluti af alþjóðlegum löggjafarramma.

Sjá skýrsluna  Decision-making management procedures í heild sinni.

Ljósmynd: Hafið, suðurströndin milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar um vetur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
June 6, 2014
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Verndun hafsins föst í neti skrifræðis“, Náttúran.is: June 6, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/06/06/verndun-hafsins-fost-i-neti-skrifraedis/ [Skoðað:June 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: