Niðursuðudósir raska hormónajafnvægi
160 efni eru nú á lista Efnastofnunar Evrópu yfir sérlega hættuleg efni. Markmiðið er að finna og skrá þau öll fyrir árið 2020. Efnin eiga það sameiginlegt að valda sjúkdómum eða safnast upp í lífverum. Sum leiða til alvarlegra truflana á hormónastarfsemi. Fjrósemi karla getur þannig minnkað.
Þeir fá kvenlegra yfirbragð, minna typpi og stærri brjóst. Efnalöggjöf Evrópusambandsins REACH tók gildi árið 2007, hérlendis 2008, og miðar að því að skrásetja, meta og veita leyfi fyrir notkun kemískra efna í Evrópu. Arnhildur Hálfdánardóttir ræddi löggjöfina og áhrif hennar við Geert Dancet, framkvæmdastjóra stofnunarinnar sem nýlega heimsótti Ísland.
Ekki öll skaðleg efni skráð
Skráning hefur verið í fyrirrúmi hjá stofnuninni síðastliðin ár og gagnagrunnurinn telur nú 12636 efni. Árlega bætast 15-20 efni á listann yfir sérlega hættuleg efni. Löggjöfin er flókin og skriffinskan í kringum hvert efni mikil. Efnastofnun vinnur eftir nákvæmum tímaáætlunum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem annast leyfisveitingar er þó ekki tímabundin í ákvörðunum sínum. Leyfisveitingar og bönn geta því verið tímafrekt ferli.
Innflytjendur skrá og rannsaka
Ólíkt fyrri löggjöf eru það nú framleiðendur og innflytjendur sem eru ábyrgir fyrir skráningu efnanna, ekki ríkisstjórnir. En býður það ekki hættunni heim ef fyrirtæki eiga sjálf að segja til um skaðsemi vörunnar sem þau selja? Hafa þau einhvern hag af því að ráðast í kostnaðarsamar rannsóknir? Dancet telur að svo sé. Fyrirtækin vinni saman að því að kanna skaðsemi efna en jafnframt myndist ákveðin samkeppni milli þeirra, þau keppist við að veita sem bestar upplýsingar og lita sem best út í augum neytenda. Löggjöfin hefur að mati Dancets leitt til nýsköpunar. Margir framleiðendur eru þannig hættir að senda efni í leyfisveitingarferli, skipta frekar skaðlegum eiturefnum út fyrir hættuminni staðgengla.Þá hafi fyrirtækin mun meiri þekkingu á eigin vörum, áður keyptu þau innihaldsefni að utan án þess að hafa hugmynd um hvað væri í þeim.
Bisphenol A í eldlínunni
Gott dæmi um efni sem hefur verið í eldlínunni síðastliðin ár en ekki enn verið bannað er BPA eða Bisphenol A sem talið er hafa skaðleg áhrif á hormónastarfsemi líkamans. Það er notað í margar plastafurðir og til að þekja innra byrði niðursuðudósa.
Ristruflanir algengar
Rannsókn á starfsmönnum BPA verksmiðju í Kína leiddi í ljós að starfsmenn voru fjórum sinnum líklegri en aðrir til að eiga við risvandamál að stríða. Önnur rannsókn leiddi í ljós að BPA hefði áhrif á myndun eggja í eggjastokkum kvenmúsa og yki þar með líkur á fæðingargöllum í afkvæmum þeirra. BPA er talið haga sér á svipaðan hátt og kvenhormónið estrógen, börn sem komast í kynni við efnið snemma á lífsleiðinni gætu að mati rannsakendanna orðið of næm fyrir estrógeni og það leitt til fjósemisvanda, flýtt gelgjuskeiði og aukið líkur á ýmsum krabbameinum. Efnið var árið 2011 bannað í plastpelum og í maí á þessu ári var efnið flutt úr hættuflokki 2 yfir í hættuflokk 1B í flokkunarkerfi Efnastofnunar Evrópu. Það er þó ekki víst að það verði bannað fyrir fullt og allt.
Réttur neytenda
Efnastofnun heldur úti vefsíðu þar sem neytendur geta flett upp efnum og komist að því hvort þau séu hættuleg heilsu þeirra. Dancet bendir á að fyrirtæki þurfi ekki að tilgreina á umbúðum hvort sérlega hættuleg efni séu í vörunni. Það sé þó réttur neytenda að spyrja hvort vara innihaldi sérstaklega skaðleg efni. Fyrirtæki verði þá að veita skýr svör innan 45 daga.
Hlusta á viðtal við Geert Dancet, framkvæmdastjóri Efnastofnunar Evrópu (ECHA).
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Niðursuðudósir raska hormónajafnvægi“, Náttúran.is: Aug. 27, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/08/27/nidursududosir-raska-hormonajafnvaegi/ [Skoðað:Oct. 7, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.