Farfuglaheimilið Loft er fyrsta farfuglaheimilið í heiminum til að fá viðurkenningu frá alþjóðasamtökum Hostelling International fyrir gæðastarf og sjálfbærni í starfi.

Frá stofnun farfuglahreyfingarinnar hefur verið lögð áhersla á sjálfbærni í ferðamennsku þó hugtakið hafi í upphafi ekki verið skilgreint á sama hátt og það er gert í dag.
Stefna alþjóðasamtakanna var mótuð árið 1932 út frá grunnhugmyndum er varða umhyggju fyrir landinu ásamt fólki og hagkerfum, og að bjóða eigi uppá vandaða gistingu fyrir alla. Það er því greinilegt að sjálfbærni hefur verið forgangsatriði  í þróun farfuglaheimila frá upphafi. Árið 2010 stóðu alþjóðasamtökin fyrir því að útbúa stofnskrá Hostelling International um sjálfbærni sem listar grunnkröfur sem aðildarþjóðirnar, og farfuglaheimilin þá meðtalin, verða að uppfylla til að fá viðurkenningu sem sjálfbær ferðasamtök. Þetta er flóknara en margan gæti grunað, sérstaklega þar sem farfuglaheimilin eru yfir 3.500 talsins í heiminum.
HI Q&S (e. Hostelling International Quality & Sustainability) er heiti á nýju gæðaeftirlitskerfi sem verður sameinað þeim umhverfisstöðlum er voru til fyrir. Þessu nýja kerfi er ætlað að fræða, koma í framkvæmd breytingum á kröfum og hafa eftirlit með gæðum hvers farfuglaheimilis fyrir sig.

Kerfinu er skipt upp í 10 flokka:

  • Sjálfbærni skal höfð til hliðsjónar við rekstur staðarins.
  • Verndun á umhverfi og menningarverðmætum.
  • Bygging.
  • Vatn.
  • Sorp.
  • Hreyfanleiki.
  • Starfsfólk.
  • Samfélög.
  • Matur og drykkur.
  • Sanngjarn arður.

Farfuglaheimilið Loft í Reykjavík varð í júní s.l. fyrsta farfuglaheimilið í heiminum til að fá fullgildingu frá Hi Q&S eftir að kerfið var prufukeyrt á staðnum.

Brianda Lopez, sem hefur yfirumsjón með sjálfbærniverkefnum hjá alþjóðasamtökunum: „Það sem hefur helst gert þennan árangur mögulegan er að allt starfsfólkið er metnaðarfullt þegar kemur að því að framfylgja stöðlunum og í í öllu umhverfisstarfi. Allt starfsfólk stendur saman í því að gera eins vel og hægt er, þetta á við um rekstrarstjóra Reykjavíkurheimilanna, móttökustarfsfólkið og líka þá sem vinna að viðhaldi. Þessari orku og góðum vilja er stýrt af Emiliu Prodeu, umhverfis- og gæðastjóra Farfugla og svo tveimur sjálfboðaliðum sem starfa að umhverfismálum á Farfuglaheimilunum í Reykjavík. Áður en nýja gæðaeftirlitskerfinu verður formlega hrint í framkvæmd á alþjóðavísu, mun það vera prufukeyrt víðsvegar um heiminn, í Kanada, Skotlandi, Belgíu, Nýja-Sjálandi og Noregi. Það er gert til að tryggja að viðmiðin eigi við öll Farfuglaheimili og að heimilin séu fær um að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.“

Birt:
Sept. 2, 2014
Tilvitnun:
Farfuglaheimilið Loft „Farfuglaheimilið Loft er fyrsta farfuglaheimilið í heiminum til að fá viðurkenningu fyrir gæðastarf og sjálfbærni“, Náttúran.is: Sept. 2, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/09/02/farfuglaheimilid-loft-er-fyrsta-farfuglaheimilid-i/ [Skoðað:May 28, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: