Skjáskot úr viðtali við Bob Aitken í fréttum Ríkissjónvarpsin þ. 9. okt. 2014.Margt af því sem gert hefur verið til að bregðast við ágangi ferðamanna og vernda viðkvæm svæði, hefur í raun gert illt verra. Þetta segir Bob Aitken, skoskur landfræðingur og ráðgjafi í umhverfismálum.

Hann hefur í 30 ár sérhæft sig í ráðgjöf um lagningu göngustíga á viðkvæmum svæðum og viðhaldi á þeim. Hann hefur heimsótt ýmsa staði hér á landi. „Umfang ferðaþjónustunnar er orðið slíkt að margir staðir sem voru án eftirlits, til dæmis staðir sem aðeins Íslendingar þekktu, verða nú fyrir miklu meiri ágangi en áður,“ segir Aitken. „Sumt af því starfi sem þar hefur verið unnið er þannig að of miklum peningum hefur verið varið í að leysa vandamálin til bráðabirgða og það hefur öfug áhrif að mínu mati.“

Leggja þurfi göngustíg í áföngum og meta hvernig hann reynist. Mörg mistök hafi verið gerð við endurbætur á göngustíg í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. „Ég myndi segja að tilraunir til að fyrirbyggja skemmdir og gera við tjón hafi dregið úr gildi staðarins.“

Slæmt hafi verið að nota vélar til að gera breiðan veg þar sem nóg var að mannshöndin gerði þröngan gönguslóða. „Þá skapast hætta á meira tjóni á umhverfinu og náttúrunni, sem dregur úr ánægju gesta.“

Gönguleiðin á Esju er heldur ekki gallalaus. Þá sést greinilega hvernig göngufólk hefur flúið bleytuna á stígnum og gengið á grasinu og skemmt það. Sums staðar vantar líka að afmarka hliðar göngustígsins. Aitken fór fullur eftirvæntingar að skoða Geysi. „Þetta er guðfaðir allra goshvera í heiminum, sem gaf þeim nafn á ensku. Þessi staður er mjög ófullnægjandi að mínu mati og veldur mér vonbrigðum.

Göngustígar dreifist óreglulega um svæðið og efnið sem notað er til að afmarka svæðið og stígana falli ekki inn í landslagið.

Sjá viðtalið á ruv.is.

Birt:
Oct. 12, 2014
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Viðbrögð við ágangi í raun gert illt verra“, Náttúran.is: Oct. 12, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/10/14/vidbrogd-vid-agangi-i-raun-gert-illt-verra/ [Skoðað:Oct. 7, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Oct. 14, 2014

Messages: