Sýning um hantökurnar í Gálgahrauni sl. haust undir nýrri brú í Gálgaharuni. Ljósm Guðrún Tryggvadóttir.Fyrirtaka í skaðabótamáli tíu Hraunavina gegn íslenska ríkinu var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeir krefja ríkið um tvær milljónir hver vegna aðgerða lögreglunnar í Gálgahrauni fyrir ári síðan. Meðal þeirra er Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður.

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lögmaður Hraunavina, segir í samtali við fréttastofu í morgun að málin tíu séu keimlík. Mótmælendunum hafi verið gert að þola frelsissviptingu og ólögmætri handtöku.

Ragnheiður segir að fólkið hafi verið í fullum rétti til að mótmæla framkvæmdum á Álftanesi og að fyrirmælin sem lögregla gaf á sínum tíma hafi verið ólögmæt.

Hátt á annan tug mótmælenda voru handteknir í mótmælunum í október fyrir ári síðan. Níu þeirra voru nýverið dæmdir til sektargreiðslu í Héraðsdómi Reykjaness vegna mótmælanna.

Níumenningarnir  hafa óskað eftir upplýsingum um hvort lögregla hafi tekið saman skýrslu vegna aðgerðanna. Í tilkynningu frá þeim kom fram að ekki færri en sextíu lögrelgumenn hafi verið á vettvangi í Gálgahrauni.

Birt:
Nov. 8, 2014
Höfundur:
freyrgigja
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
freyrgigja „10 Hraunavinir vilja 20 milljónir í bætur“, Náttúran.is: Nov. 8, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/11/08/10-hraunavinir-vilja-20-milljonir-i-baetur/ [Skoðað:July 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: