Ný norræn loftslagsáskorun á að efla umhverfisvitund barna
Norræna ráðherranefndin gerði Norræna loftslagsdaginn 11. nóvember að merkisdegi. Þá var nefnilega ýtt úr vör nýju og mjög metnaðarfullu námsefni um norrænt loftslag fyrir aldurshópinn 12 til 14 ára.
Loftslagsnámsefnið er ætlað til kennslu náttúruvísinda- og samfélagsgreina, en einn hluti þess er spennandi norræn skólasamkeppni um orkusparnað sem nefnist „Loftslagsáskorunin“.
„Með Loftslagsáskoruninni leggja Norðurlönd aukna áherslu á sjálfbærni með því að hvetja í senn til samstarfs og samkeppni í kennslu um orku- og umhverfismál í norrænum grunnskólum,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten, í tengslum við opnun vefgáttarinnar.
Norræna loftslagsáskorunin er tilboð til norrænna skóla um samstarf, sameiginlega fagþekkingu og menntun til að stuðla að sameiginlegri, grænni framtíð. Námsefnið er samið með hliðsjón af námsskrám Norðurlanda. Það er sveigjanlegt og lifandi og byggir á stafrænum námslausnum.
Námsefnið verður hluti af norrænu kennslugáttinni nordeniskolen.org. Í nóvember 2014 fagnar vefgáttin eins árs afmæli og þegar hafa fleiri en 1400 kennarar frá öllum Norðurlöndunum skráð sig.
Loftslagsáskorunin er hluti af stærra átaki á sviði græns vaxtar sem forsætisráðherrar Norðurlanda hafa beðið Norrænu ráðherranefndina að hafa umsjón með. Nánari upplýsingar má finna á www.nordicway.org.
Ánægðir kennarar
Einn af mikilvægustu markhópunum, það er að segja norrænir kennarar, er ákaflega ánægður með sameiginlegt norrænt námsefni.
„Vefurinn nordeniskolen.org er byggður upp á einfaldan hátt, auðvelt er að fá góða yfirsýn og þemun eru góð og breið. Nemendurnir geta fljótt fundið það sem þeir þurfa og á undirsíðum vefsins er gnægtarhorn verkefna og kennsluhugmynda til kennara í „kennarastofunni“,“ segir Martin Jantzen, kennari í Lundtofte-skóla í Lyngby í Danmörku.
Åse Tyldum við Breidablikk-skóla í Þrándheimi í Noregi er á sama máli:
„Auðvelt er að komast í samband við kennara í öðrum norrænum löndum gegnum vefinn og nemendur geta líka auðveldlega myndað tengsl landa í milli. Á þessu skólaári hefur bekkurinn minn haft sænskan vináttubekk og það hefur verið jákvæð upplifun hvort tveggja fyrir kennara og nemendur, segir hún.
Taktu þátt í að styrkja norræna heildarþáttinn í kennslunni. Nánari upplýsingar og forskráningareyðublað má nálgast á kynningarvefnum www.klimaduellen.org
-
Loftslagsdagur Norðurlanda
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Ný norræn loftslagsáskorun á að efla umhverfisvitund barna“, Náttúran.is: Nov. 14, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/11/14/ny-norraen-loftslagsaskorun-ad-efla-umhverfisvitun/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.