Almenningsrými eru til að nota, segir forsprakki Laugargarðs

Mikil vakning hefur orðið á borgarbúskap um allan heim og hefur hann skotið rótum sínum í almenningsgarði í Reykjavík. Í útjaðri grasagarðsins í Laugardal hefur í sumar verið starfræktur samfélagsrekinn matjurtargarður.  Hönnuðurinn Brynja Þóra Guðnadóttir er ein af forsprökkum verkefnisins Laugargarðs.

 Laugargarði er lögð áhersla á að skapa samfélag þar sem fólk vinnur saman að sameiginlegum markmiðum og miðlar af reynslu sinni. Ljósm. Niki Jiao, Laugagarður.Laugargarður er tilraunaverkefni sem gengur út á að nýta almenningsrými borgarinnar undir matjurtarræktun fyrir hverfisbúa og skapa um leið vettvang fyrir ýmsar uppákomur og fræðslu sem tengist sjálfbærni og matarmenningu.

Þau Brynja Þóra Guðnadóttir, Auður Inez Sellgren, Andri Andrésson og Niki Jiao stóðu fyrir starfseminni í sumar og fengu íbúa í Laugardal til liðs við sig.

„Borgarbúskapur getur verið margvíslegur. Reykjavíkurborg og Garðyrkjufélagið leigja út matjurtagarða til einstaklinga. Okkur langaði að prófa  nýtt form, þar sem fólk gæti hjálpast að við ræktun matjurta. Garðurinn hentar fólki sem hefur áhuga á ræktun en lítinn tíma til að sinna henna. Einnig höfum við tekið eftir því í sumar að fólk sem eru virkir ræktendur hafa áhuga á að taka þátt í sameiginlegri ræktun, “ segir Brynja.

Í Laugargarði eru ræktaðar kartöflur, rótargrænmeti, jarðaber, salöt, spínat, kál, te- og kryddjurtir svo eitthvað sé nefnt. Einungis notast við lífrænan áburð og er ræktunin í anda vistræktar. „Hugmyndafræði vistræktar um að líkja eftir náttúrulegum ferlum í hönnun ræktunarsvæðis fer vel saman við hugmyndafræði Laugargarðs um að gera verkið sem sjálfbærast og í sátt og samlyndi við náttúruna.“

Brynja Þóra segir markmið Laugargarðs að færa nágranna nær hver öðrum og nær náttúrunni, með sameiginlegri ræktun hollra matvæla. Ljósm. Guðrún Hulda Pálsdóttir.Markmiðið með Laugargarði er að vera vettvangur fyrir fólk til að miðla þekkingu og fræðslu sín á milli og voru haldnar tvær vinnustofur í tengslum við garðinn í sumar.

„Mín kynslóð hefur misst þekkingu á ræktun. Áður fyrr kunnu allir handtökin, enda var ræktunin þeim nauðsynleg.

Í dag er aðstaðan önnur. Við höfum verið að missa tengslin við náttúruna og hefur þótt sjálfsagt að fá mat alls staðar að úr heiminum.“

Sá hugsunarháttur er þó að breytast að mati Brynju og mikil vitundarvakning hefur átt sér stað á sviði sjálfbærni.

„Laugargarður er einnig vettvangur til að fræðast og geta þátttakendur tekið þekkinguna með sér heim. Í sameiningu höfum við til dæmis skoðað margs konar sniðugar lausnir, eins og hvernig eigi að rækta í litlum rýmum og fá hámarksuppskeru, og hvernig við getum unnið betur með náttúrunni.“

Vill auka notkun á almenningsrýmum
Almenningsrými er Brynju hugleikinn og telur mikilvægt að nota þau til að efla tengsl borgarbúa. „Samskipti okkar við umhverfið og fólkið í kringum okkur hefur áhrif á okkur. Jákvæð samskipti gerir það að verkum að við verðum umburðarlyndari. Almenningsrými er vettvangur til að fá fólk saman og vekja það til umhugsunar. Með Laugargarði langaði okkur að skapa líf í almenningsrýmum og auka um leið samskipti meðal borgarbúa. Hönnun borgarinnar ýtir undir einstaklingshyggju því fólk heldur sig mikið heima hjá sér en þessu viljum við breyta. Samlífið verður skemmtilegra þegar nágrannar hafa samskipti. Almenningsrými eru ekki bara til að horfa á, heldur til að nota. Laugagarður er þáttur í að auka fjölbreytileika almenningsrýma,“ segir Brynja.

Laugagarður á sér erlendar fyrirmyndir en Brynja segir borgarbúskap alls staðar í heiminum vera að vaxa. „Ég nefni Kanada sem dæmi því þar er borgarbúskapur útbreiddur og komið hefur verið á lögum til að efla slíka starfsemi. Fólk virðist vera að reyna að finna nýjar leiðir til að endurhanna kerfið. Það eru önnur verðmæti en peningar og við þurfum ekki að láta þá stjórna okkur. Það er til dæmis hægt að skiptast á plöntum, því matur er meira virði en peningar. Frumlegheitin eru alltaf að verða meiri og meiri.“ Þess má geta að samkvæmt borgarskipulagi Reykjavíkurborgar hefur verið ákveðið að móta stefnu um borgarbúskap í Reykjavík, til að auka möguleika borgarbúa á neyslu ferskra matvæla.

Vel sóttur bændamarkaður
Um 300 manns lögðu leið sína í Laugagarð á uppskeruhátíð og bændamarkað þann 24. ágúst sl. Þar kynntu gestir sér starfsemina, gæddu sér á súpu úr veigum garðsins og gátu keypt grænmeti beint úr garðinum. Ljósm. Niki Jiao, Laugagarður.Viðbrögð borgarbúa við garðinum hafa verið mjög góð.  „Við byrjuðum seint með verkefnið, fengum garðinum úthlutað í júníbyrjun og höfðum því ekki mikinn tíma til að kynna verkefnið. 

Borgarbúar hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og Reykjavíkurborg hefur stutt okkur. Margir hafa sýnt áhuga á að bætast  í hópinn fyrir næsta ræktunartímabil. Við stóðum fyrir sáningardegi, plöntuskiptidegi og bændamarkaði sem var vel sóttur og það sýnir okkur að þetta er það sem fólk vill er ferskt grænmeti úr nánasta umhverfi.

Ég held að það þurfi bara að leiðbeina því við ræktun og breiða út þekkinguna.

Leikskólar á svæðinu fengu að kynnast starfsemi Laugargarðs í sumar og voru mjög áhugasamir um að koma meira að garðinum fyrir næsta ræktunartímabil. Laugargarður gæti því verið áhugaverð tilraun til þess að tengja saman skóla og íbúa.  Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta þróast og hvort við höfum  náð (eða náðst hafi) að kveikja áhuga hjá íbúum til taka þátt í skipulagningu fyrir næsta sumar.

Aðstandendur garðsins unnu skýrslu í lok sumars um verkefnið  sem má finna á heimasíðu Laugargarðs:  http://laugargardur.com/wordpress/?page_id=289

Hvað er borgarbúskapur?

Aðgangur að hollum og ferskum matvælum sem framleidd eru af sanngirni með velferð lands og fólks í huga, eru mikilvægur þáttur í lífskjörum fólks. Ræktun matvæla í nágrenni við búsetu tryggir ferskan og næringarríkan mat auk þess sem hann dregur úr orkunotkun. Borgarbúskapur er framleiðsla á matvælum innan borgarmarkanna hvort sem er úr jurta- eða dýraríki  og óiðnvædd úrvinnsla og dreifing slíkrar framleiðslu. Borgarbúskapur sprettur upp úr umræðum um neikvæð umhverfisáhrif iðnvædds landbúnaðar. Um leið og íbúum þéttbýlis fjölgar er litið á borgarbúskap sem leið til að auka fæðuöryggi mannkyns. Hægt er að nálgast drög að stefnu um uppbyggingu borgarbúskapar í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

Birt:
Nov. 21, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Matjurtabændur í borg“, Náttúran.is: Nov. 21, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/11/21/matjurtabaendur-i-borg/ [Skoðað:April 23, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 23, 2014

Messages: