Laugardaginn 29. nóvember næstkomandi mun Fuglavernd halda ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggja á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og er niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan ber yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og verður haldin í salarkynnum Háskóla Íslands frá 10:10-13:10 í stofu 101 Odda. Hún hefst á því að lagt verður fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo verður m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi, og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.

Landnotkun verður rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo verður sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta er svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga.
Dagskrá ráðstefnunnar er að finna á www.fuglavernd.is en hún er styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis. 


Birt:
Nov. 26, 2014
Höfundur:
Fuglavernd
Tilvitnun:
Fuglavernd „Eiga mófuglar undir högg að sækja?“, Náttúran.is: Nov. 26, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/11/26/eiga-mofuglar-undir-hogg-ad-saekja/ [Skoðað:May 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 27, 2014

Messages: