Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakanna um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði.

Við upphaf Jökulsárgöngunnar (mótmælagöngunnar miklu) þ 26. sept. 2006. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Að kvöldi 26. september 2006  leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúrverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði.

Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar. Ómar er í eldlínunni þessar vikurnar og segir frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann. Að þessu sinni segir hann frá ferðum sínum á Kárahnjúkasvæðið og þeim mikla uppblæstri sem þar er nú. En fyrst eru það heimsóknir hans í 28 þjóðgarða erlendis og á 18 virkjunarsvæði og áfallið sem hann fékk vegna þess að við Íslendingar vorum mörgum árum á eftir nágrannaþjóðum okkar varðandi virkjanamál.

Hlusta á viðtalið.

Útdráttur úr viðtalinu

Eftirbátar varðandi umræðu um virkjanamál og uppblástur á Kárahnjúkasvæðinu

Heimskur er heima alinn maður eða sjálfviti
Árið 1995 þegar bæklingur á vegum markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar kom út um ,,Lowest energy prices” var heildarframleiðsla á áli á Íslandi 100.200 tonn á ári en á þeim tíma var eina álverið í landinu í Straumsvík. Árið 2015 gætu Íslendingar verið að framleiða rúmlega 1,5 milljón tonn af áli sem er rúmlega fimmtánfalt meiri framleiðsla en árið 1995, segir í bæklingnum. Bæklingurinn er ekki lengur aðgengilegur á vefsíðu ráðuneytisins en hér sést forsíða hans.Á sínum tíma þegar Ómar var að fjalla um Kárahnjúka og virkjunarmál gerði hann sér grein fyrir hvað hann vissi lítið um slík mál og segir. „Orðið heimskur að fornu lýsir þeim sem er alltaf heima, horfir á málin frá sínum sjónarhóli og heldur að öll vitneskja sé þar saman komin. Hann verður einskonar „Besservisser“ eða sjálfviti eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson segir. Það rímar svo vel á móti hálfviti.

Ég áttaði mig á að ég vissi ekkert um þjóðgarða í öðrum löndum og hafði ekki skoðað neina slíka. Ég fór því fyrst til Noregs þar sem Norskt Hydro var að að störfum hér og gerði um það þrjá þætti sem heita „Út vil ek“. Í Noregi fékk ég sjokk því þá, árið 1998 vorum við 30 árum á eftir Norðmönnum í virkjanamálum. Þeir höfðu átt sinn „lang stæsta draum“ ( LSD) um að leggja allt hálendið undir en ég komst ekki að því fyrr en 10 árum síðar því þeir skömmuðust sín svo mikið fyrir það. En í  Bandaríkjunum fékk ég áfall, við vorum 50 ár á eftir þeim varðandi umræðuna um virkjanir. Um 1965 voru uppi hugmyndir þar um að gljúfur væri mikið fallegra ef það væri hálffyllt af vatni því þá væri hægt að sigla um það og skoða bergveggina. Þessi umræða var afgreidd á einu bretti með auglýsingu með mynd af Sixtínsku kapellunni hálffullri af vatni og fólki að sigla á vatninu til að skoða myndirnar í loftinu.

Tók slaginn í stað þess að flytja til Ástralíu
Alls skoðaði Ómar 28 þjóðgarða og 18 virkjunarsvæði á ferðum sínum og dró af því mikinn lærdóm. Þegar hann sá í hvað stefndi varðandi virkjanamál hér á landið árið 1999  hvarflaði að honum að flytja til Ástralíu en tók hins vegar slaginn, þó hann vissi að hann væri tapaður. Í dag dvelur Ómar á Kárahnjúkasvæðinu margar vikur á hverju sumri en veit af mörgum sem geta ekki hugsað sér að koma á svæðið og sjá þessa hörmung. Ég læt mig hafa það segir hann vegna þess að það herðir mig. Þetta er svo stórt svæði að ég þekki það ekki nándar nógu vel.

Framkvæmdir við Kárahnjúka 2006. Ljósm. af Hugras.isÉg sýndi  Íslendingum Hafrahvammagljúfur árið 1982 þegar ég flaug þar yfir og gerði síðan 50 þætti um umhverfismál á Stöð 2 undir nafninu „Aðeins ein jörð“. Það er eitt af því sem ég er  ánægðastur með að hafa gert um dagana. Þá tók ég meðal annars fyrir drauminn um að sökkva þessum gljúfrum. Alveg fram á að landinu var sökkt fann ég að ég vissi ekki nóg þó hafði ég þurft að ganga mikið um það til að finna lendingarstaði. Nú kem ég þarna í júní á hverju ári til að opna flugvöllinn sem er fyrir utan svæðið og fyrir utan þjóðgarðinn. Þetta er öryggisflugvöllur fyrir allar flugvélar sem fljúga innanlands, næststæsti flugvöllur á Íslandi.

Nokkur miljón tonn af jökulleir í lónstæðinu á vorin
Nú í sumar var ég á Kárahnjúkasvæðinu nokkurn veginn samfellt í 3vikur vegna gossins í Holuhrauni. Fyrri part sumars er ástandið þarna skelfileg. Megnið af lónsstæðinu er á þurru og þar situr fint duft sem er eins og hveiti, nokkur miljón tonn sem Jökla hefur borið fram síðan í fyrra. Það þarf ekki nema golu eða stinningskalda til að það sé leirstormur. Myndin sem Landsvirkjun setti fram um hálendismiðstöð með seglskútur á lóninu og fólk að veiða og klifra á stíflunni var  enn ein blekkingin.

Útsýnisstaðurinn við Kárahnjúkastíflu. Stíflan í byggingu haustið 2006. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Þarna er ekki hægt að hafa neina ferðamennsku fyrr en um miðjan júlí og þá í mesta lagi í mánuð. Í júni eru bestu dagarnir verstir því þá er hnjúkaþeyr, þurrt, heiðskýrt og allt á kafi í leirstormi. Hálslón er svo gruggugt að skyggni þar eru 4 sm, þar getur ekkert líf þrifist. Þegar lónið fyllist í júlí er ástandið skaplegra svona í mánuð. Ómar segist ekki verða var við nokkurn mann allan þann tíma sem hann dvelur á svæðinu. Ég yrði var við umferð, segir hann.

Er meira á Kárahnjúkasvæðinu en flestir Austfirðingar
Ég er mikið meira á þessu svæði en flestir Austfirðingar segir Ómar. Þó er sagt að ég viti ekki hvað ég er að segja þegar ég tala um leirstorm því það er ekki hægt að sjá hann frá Egilsstöðum. Austfirðingar fengu sitt álver en það hefur alltaf verið þöggun um þetta mál fyrir austan, segir Ómar.

Hann segist eiga marga góða vini á svæðinu þrátt fyrir að á tímabili hafi hann verið stimplaður sem óvinur Austurlands númer eitt. Hann efast um að allir séu jafn ánægðir með virkjunina og álverið og menn vilja vera láta og staðreyndin sé sú að það búa færri í Fjarðabyggð nú en áður en framkvæmdirnar hófust.

ÍSéð yfir rykmistur við Hálslón í júlí 2009. Ljósm. Ólafur Sigurjónsson. öðrum landshlutum hefur þetta „eitthvað annað“ blómstrað en allt slíkt hefur verið drepið niður fyrir austan. Ómar segir að þegar þann þurfti enn að vera óhlutdrægur hafi hann oft verið spurður um viðhorf sitt til álversins og þá hafi menn túlkað svar hans eins og honum væri alveg sama því hann gat ekki tekið afstöðu. Hans svar var að hann hefði ekki gögn til að dæma hvort það væri rétt eða rangt að virkja. Það þyrfti 20 ár áður en hægt væri að meta hvort svo væri því þegar virkjun er reist  er það búið og gert og ekki hægt að prófa neitt annað. Ef það á að vera sanngirni þarf að gefa öðrum kostum þau tuttugu ár sem það tekur að vinna upp ferðaþjónustu og fleira á svæðinu.

Hefði átt að setja Brúarjökul og áhrifasvæði hans á heimsminjaskrá
Ég sá fyrir mér margar nýjar gönguleiðir í Hjalladal  þegar ég sigldi á lóninu í hvert sinn sem það fylltist meira. Þetta hefði getað orðið dásamlegt göngusvæði. Það hefði verið hægt að setja Brúarjökul og allt það svæði sem hann hefur skapað á heimsmynjaskrá UNESCO, Kringisárrana, hraukana, sem eru einstæðir og hvergi til í heiminum nema þarna, Krákustígshryggina, Rauðugljúfur, Sethjallana og dalinn með sinni bogadregnu löngu grænu hlíð og áfram alveg út í Héraðsflóa.

Leireðjan á bökkum Hálslóns í júlí 2009. Ljósm. Ólafur Sigurjónsson.Það hefði þurft að gefa slíku möguleika í 20 ár. Ef þá hefði komið í ljós að ekki væri grundvöllur fyrir neinu öðru en álveri væri ég til í að samþykkja álver. Munurinn á að virkja eða ekki virkja er sá við virkjunarframkvæmdin er óafturkræf, það er ekki hægt að snúa til baka. Aðrir kostir útiloka hins vegar  ekki virkjun seinna meir. Virkjun útilokar hins vegar alla aðra möguleika.

Við erum með jafnrétti kynslóðanna ef við virkjum ekki. Þá værum við eins og indíánarnir sem voru kallaðir frumstæðir þjóðflokkar. Þeir voru með sjálfbæra þróun á mjög skemmtilegan hátt. Þeir treystu sér til sjá sjö kynslóðir fram í tímann.

Engin nýting átti  að skerða rétt sjö kynslóða það er nýtingu næstu 200 árin. Þetta var í raun sjálfbær þróun því á hverju ári bættist ný kynslóð við.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á viðtalið.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Ómar Ragnarsson III


Birt:
Nov. 28, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni – Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 3. þáttur“, Náttúran.is: Nov. 28, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/11/27/med-natturunni-omar-ragnarsson-i-eldlinunni-3-that/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 27, 2014
breytt: Dec. 6, 2014

Messages: