Vitundarvakning um úrgangsmál
Fyrir rúmum 12 árum síðan voru hér á landi samþykkt lög um meðhöndlun úrgangs (nr. 55/2003 ). Meginmarkmið laganna er að tryggja ábyrga úrgangsstjórnun og að meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og að ekki hljótist af skaði fyrir umhverfið. Þá sé unnið að sjálfbærri auðlindanotkun og með sértækum aðgerðum og fræðslu reynt að draga úr myndun úrgangs og auka nýtingu hráefna. Mikilvægt er lika það grundvallaratriði að handhafar úrgangs borgi ávallt þann kostnað sem til fellur.
En svokölluð mengunarbótaregla var innleidd í íslensk lög árið 2012 og er í raun um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.
Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og samfarandi reglugerð, en í nýjustu breytingu á reglugerðinni (nr. 737/2003) sem samþykkt var í lokt október 2014 eru nú sett fram dæmi um leiðir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs, þar með talið úrgang sem til fellur við ýmsar framkvæmdir svo sem byggingarstarfsemi og matvælaframleiðslu.
Í alþjóðlegum vistvottunarkerfum fyrir byggingar er sérstök áhersla lögð á að endurnýta það sem hægt er af eldra byggingarefni til dæmis við endurgerð eldra húsnæðis. Þá skal ávallt nota vistvænt byggingarefni eins og kostur er, eða byggingarefni sem innihaldi ekki eiturefni og eru vönduð og endingargóð, sem um leið dregur úr kostnaði við viðhald og eykur líkur á að efnið verði endurnýtt síðar meir.
Þá er gagnlegt að hafa aðgengilegar upplýsingar um innihald vöru út frá umhverfissjónarmiðum, en víða erlendis er nú gerð krafa um svokallaðar EPD merkingar, eða umhverfisyfirlýsingu vöru sem gerir neytendum kleift að bera saman umhverfisáhrif vörunnar og taka þannig upplýsta og meðvitaða ákvörðun um vistvæn innkaup. Í þessu sambandi skiptir einnig miklu máli hvaða ákvarðanir eru teknar i hönnunarferlinu sjálfu og hvort að ákvörðunum hönnuða varðandi val á vistvænum byggingarefnum sé framfylgt í framkvæmdinni sjálfri, og ekki einungis tekin ákvörðun út frá kostnaðarmati framkvæmdar.
Það er því afar jákvætt að sjá þessa nýju viðbót við reglugerðina, áhersluna á eflingu visthönnunar og tillögur um aukinn stuðning við fræðslu og almenna vitundarvakningu svo sem í gegnum viðskiptanet og í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.Í endurskoðaðri reglugerð er ennfremur lagt til að gerðir verði samningar við ýmsa aðila og fyrirtæki í framleiðslugeiranum í því skyni að auka fræðslu og auðvelda fyrirtækjum að setja sér áætlanir og markmið sem miði að því að draga markvisst úr úrgangsmyndun t.a.m með því að notast umhverfisstjórnunar- og gæðakerfi Evrópusambandsins og ISO 14001.
Þá er lagt til að notuð verði ýmis konar stjórntæki eins og efnahagslegar ívilnanir vegna vistvænna innkaupa. Átak verði gert í að efla fræðslu til almennings og fyrirtækja um traust og viðurkennd umhverfisvottunarkerfi og almenn umhverfisviðmið. Reynslan í nágrannalöndum hefur einmitt sýnt að svona aðgerðir hafa raunveruleg áhrif og eru nauðsynlegar til þess að hreyfa við markaðinum og þurfa opinberir aðilar eins og ríki og sveitarfélög að vera í forystuhlutverki. Hér á landi höfum við svo sannarlega tækifæri til að standa framarlega á þessu sviði ef allir taka höndum saman um að framfylgja þeim markmiðum sem eru sett fram í lögum um úrgangsstjórnun sem og öðrum lögum og reglugerðum sem varða umhverfismál.
Þess má að lokum geta að Vistbyggðarráð vinnur nú að því í samstarfi við systursamtök á Norðulöndunum að auka aðgengi að upplýsingum um vistvæn byggingarefni eða byggingarefni sem hafa svokallaðar EPD merkingar, sem sett verða fram í gagnabanka sem verði öllum opinn. (sjá nánari upplysingar hér).
Birt:
Tilvitnun:
Sigríður Björk Jónsdóttir „Vitundarvakning um úrgangsmál“, Náttúran.is: Jan. 16, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/01/16/vitundarvakning-um-urgangsmal/ [Skoðað:Oct. 5, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.