Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu flytur erindið Heimsþing um friðlýst svæði / IUCN World Parks Congress 2014 á Hrafnaþingi miðvikudaginn 28. janúar kl. 15:15.

Úrdráttur úr erindinu:

Í haust var haldið í Sydney, Ástralíu, heimsþing Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um friðlýst svæði, World Parks Congress sem haldið hefur verið á 10 ára fresti síðan árið 1962. Þetta þing sóttu um 6000 þátttakendur frá  170 löndum með fjölbreyttan bakgrunn. Síðasta þing var haldið í Suður-Afríku.

Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði gegna lykilhlutverki í náttúruvernd flestra ríkja. Á þinginu var fjallað um málefni friðlýstra svæða og náttúruverndar frá fjölmörgum sjónarhornum. Þar má nefna verndarmarkmið, val á svæðum, stofnun svæða, ástand og virkni, stjórnkerfi, fjármögnun, rekstur og málefni frumbyggja o.fl. Þingið var jafnframt vettvangur fyrir útgáfu og umfjöllun um stöðu friðlýstra svæða og stjórnun þeirra.

Frá síðasta þingi fyrir 10 árum hafa orðið ýmsar breytingar sem voru til umfjöllunar. Niðurstöður ráðstefnunnar eru teknar saman í yfirlýsingu sem kallast „Promise of Sydney“ og er ætlað að vera til leiðsagnar við vinnu með friðlýst svæðið á næstu árum.

Málefni þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða eru afar mikilvæg á Íslandi, jafnt og annarsstaðar. Á Íslandi hefur nálægt fimmtungur landsins verið formlega friðlýstur og felldur undir stjórnkerfi þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Jafnframt hafa slík svæði nú orðið þungamiðjan í einum öflugasta atvinnuvegi þjóðarinnar  ̶  ferðaþjónustunni. Því höfum við bæði af miklu að miðla hvað varðar þekkingu og reynslu með friðlýst svæði, en getum og þurfum jafnframt mikið af öðrum að læra. Jón Geir sótti þingið og verður í erindinu fjallað um helstu áherslumál þess og þau rædd í samhengi okkar aðstæðna.


Birt:
Jan. 28, 2015
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing – Heimsþing um friðlýst svæði / IUCN World Parks Congress 2014“, Náttúran.is: Jan. 28, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/01/28/hrafnathing-heimsthing-um-fridlyst-svaedi-iucn-wor/ [Skoðað:Nov. 29, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: