Árangursrík skóggræðsla með birki á vikursöndum Heklu. Kjötmjöl nýtist vel við þessa uppgræðslu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Á ráðstefnu sem haldin verður í Gunnarsholti á Rangárvöllum föstudaginn 20. mars verður fjallað á margvíslegan hátt um þá möguleika sem felast í nýtingu lífræns úrgangs, meðal annars til skógræktar og landgræðslu.

Að ráðstefnunni standa Sorpurðun Vesturlands, Molta ehf. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ásamt Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, verður ráðstefnustjóri.

Dagskrá ráðstefnunnar hefur verið birt með fyrirvara um breytingar. Þar kennir ýmissa grasa. Rætt verður um hugtökin úrgang og hráefni en síðari ár hefur þróunin verið í þá átt að líta á úrgang frekar sem hráefni en vandamál. Farið verður yfir þá stöðu sem er í þessum málum hérlendis um þessar mundir, hvaða farvegir eru fyrir lífrænan úrgang og lausnir sem notaðar eru á ýmsum stöðum á landinu. Rætt verður um lög og reglugerðir í nútíð og framtíð, þróun í vinnslutækni og nýtingu, stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum og hver skuli draga vagninn í þessum efnum. Sömuleiðis verða sagðar reynslusögur af lífrænni ræktun með hjálp lífræns úrgangs í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, notkun kjötmjöls í Hekluskógum og landgræðslu með kjötmjöli og gor.

Af einstökum fyrirlesurum má nefna Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing hjá Environice, sem svarar spurningunni um hvers vegna sveitarfélag ætti að velta lífrænum úrgangi fyrir sér, Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir frá nýrri gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu og þá ávarpar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra líka ráðstefnuna.

Boðið verður upp á rútuferð úr Reykjavík og til baka ef næg þátttaka fæst. Farið kostar 3.500 krónur. Skráning fer fram í tölvupósti til Eddu Linn Rise á netfangið eddalinn@land.is. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig sem fyrst og í allra síðasta lagi 17. mars. Þetta gildir bæði um skráningu á ráðstefnuna og í rútuna.

Dagskrá (með fyrirvara um hugsanlegar breytingar)

  • 9.30 Skráning gesta, morgunkaffi og horft til himins. Allt að 98% deildarmyrkvi á sólu í Gunnarsholti kl. 9.37
  • 10.00 Gestir boðnir velkomnir – Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri
  • 10.05 Setning ráðstefnunnar – fulltrúi vinnuhóps
  • 10.15 Úrgangur eða hráefni, úrgangur í dag neysluvara á morgun – Lúðvík E. Gústafsson Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • 10.35 Nýting lífræns úrgangs. Staðan um þessar mundir
    a. Farvegir og straumar – Eiður Guðmundsson
    b. Lausnir á Suðurlandi, Orkugerðin – Guðmundur Tryggvi Ólafsson
  • 11.15 Af hverju ætti sveitarfélag að velta lífrænum úrgangi fyrir sér? – Stefán Gíslason Environice
  • 11.35 Lög og reglugerðir á mannamáli. Hvað má og hvað má ekki? – Elsa Ingjaldsdóttir Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Guðrún Lind Rúnarsdóttir MAST
  • 12.00 Hádegismatur
  • 13.00 Ávarp Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra
  • 13.20 Vinnslutækni og nýting. Ný gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu – Björn Hafsteinn Halldórsson SORPU
  • 13.40 Umhverfisáhrif nýtingar – Teitur Gunnarson Mannviti
  • 14.00 Stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum. Hver á að draga vagninn? – Laufey Guðmundsdóttir, lögfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Lúðvík E. Gústafsson Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • 14.30 Reynslusögur
    a. Lífræn ræktun í Skaftholti
    b. Hekluskógaverkefnið
    c. Landgræðsla með kjötmjöli og gor
  • 15.00 Kaffi
  • 15.20 „Er ekki tími til kominn að tengja?“ Verkefni og hugmyndir í gangi
    a. Verkefni UST. Öflun upplýsinga um lífrænan úrgang. Styrkt af norrænu ráðherranefndinni – Guðrún Lilja Kristinsdóttir Umhverfisstofnun
    b. Verkefni Landgræðslunnar í nýtingu lífræns úrgangs – Magnús H. Jóhannsson Landgræðslunni
    c. Hagkvæmni metanframleiðslu – Dofri Hermannsson Íslenska gámafélaginu
  • 16.10 Pallborðsumræður – Guðrún Lind Rúnarsdóttir, Lúðvík E. Gústafsson, Stefán Gíslason og Teitur Gunnarsson
  • 16.45 Ráðstefnuslit, samantekt
Birt:
March 6, 2015
Höfundur:
Pétur Halldórsson
Tilvitnun:
Pétur Halldórsson „Lífrænn úrgangur - bætt nýting, minni sóun “, Náttúran.is: March 6, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/03/06/lifraenn-urgangur-baett-nyting-minni-soun/ [Skoðað:Sept. 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: