Skjáskot úr sjöfréttatíma Sjónvarps þ. 5. mars 2015.Í sjöfréttum í gærkvöldi birti Ríkisútvarpið viðtal við Svan Sigurbjörnsson, lækni, um ósannaða virkni ýmissa vara í ápótekum, í framhaldi af umfjöllun Katsljóss um skottulækningar.

Í fréttinni eru nokkrar íslenskar vörur teknar sérstaklega til umfjöllunar og ýmislegt fullyrt um þær án þess að framleiðendum varanna sé gefið tækifæri til að tjá sig um málið.

Vörurnar sem um er að ræða heita SagaMemo frá Saga Medica og Fótagaldur frá Villimey. Viðmælandinn fullyrðir að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á virkni efnanna sem notaðar eru í vörunum. Einnig fer myndavélin yfir vöruna Hafkalk samtímis sem viðmælandinn segir að „slæmt er ef apótek taka hvað sem er til sölu“.

Hér er um frekar alvarlegar ásakanir að ræða sem RÚV birtir sem frétt. Ráðist er að viðurkenndum íslenskum frumkvöðlafyrirtækjum sem hafa öll tiltekinn leyfi fyrir hendi og hafa á undanförum árum fjárfest í íslenskri nýsköpun og spennandi vöruþróun með góðum árangri. Gefið er í skyn að hér sé um að ræða enn eina tegund af skottulækningum sem neytendur ættu að forðast.

Landsmenn bera almennt mikið traust til fréttastofu RÚV, sem í þessu tilfelli getur haft skaðleg áhrif á umrædd fyrirtæki og markaðssetningu þeirra. Fréttin rýrir algjörlega trúverðugleika varanna og ber fréttastofa RÚV að mínu mati mikla ábyrgð í málinu.

Örstutt leit á netinu skilaði allt öðrum niðurstöðum um vörurnar en Svanur gaf í skyn í viðtalinu:

Á vefsvæði Saga Medica (sagamedica.is) kemur eftirfarandi fram:

„Rannsóknarstarf SagaMedica er hornsteinninn að fyrirtækinu. Sigmundur Guðbjarnason hóf rannsóknir á íslenskum lækningajurtum árið 1992. Þær rannsóknir leiddu til stofnunar SagaMedica árið 2000, eftir að sýnt hafði verið fram á ýmsa gagnlega eiginleika jurtanna. Nú hefur SagaMedica rannsakað um helming þeirra áttatíu lækningajurta sem finna má í íslenskri náttúru.“

Í framhaldi er talin upp fjölda rannsóknastofnanna, lífefnafræðinga og prófessora frá Háskóli Íslands sem hafa komið að rannsóknum á virkni efnanna sem Saga Medica notar.

Um SagaMemo kemur m.a. eftirfarandi fram:

„SagaMemo inniheldur efni úr hvannarfræjum og blágresi úr hreinni íslenskri náttúru. Sýnt hefur verið að þessar tvær jurtir hafa samvirkni og hjálpa til að hægja á niðurbroti á asetýlkólíni, taugaboðefni sem er mikilvægt fyrir minnið. Regluleg notkun er einnig talin auka orku, framtakssemi og vellíðan.“

„Ritrýnd grein um efnin í SagaMemo var gefin út af ritrýndu, erlendu vísindatímariti. Þar var fjallað um samvirkni efnanna og hvernig virkni þeirra er meiri þegar þau eru notuð samtímis. Sigurdsson S and Gudbjarnason S (2007) Inhibition of acetylcholinesterase by extracts and constituents from Angelica archangelica and Geranium sylvaticum. Z Naturforsch 62c: 689-693“

Á vefsíðu Villimey (villimey.is) kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Smyrslin frá Villimey eru lífrænt vottuð af Vottunarstofunni Túni. Lífrænt vottaðar vinnslustöðvar uppfylla kröfur um innihald afurða, uppruna og aðgreiningu hráefna, gæðastýringu o.fl. sem reglur kveða á um.“

Á vefsvæði Hafkalks kemur eftirfarandi fram:

„Hafkalk ehf. leggur mikla áherslu á hámarks gæði og hreinleika vörunnar og vinnur samkvæmt HACCP og GMP gæðastöðlum við framleiðsluna. Einungis eru notuð innihaldsefni af hæsta gæðaflokki fyrir allar framleiðsluvörur félagsins og jafnframt eru allar framleiðsluvörur fyrirtækisins lausar við fylliefni, kekkjavarnarefni og önnur óæskileg íblöndunarefni. Vottunarstofan Tún staðfesti á árinu 2012 að Hafkalk ehf. uppfylli reglur um framleiðslu náttúruvara og er fyrirtækinu heimilt að nota merki Túns á vörur sínar. Með vottun Túns er staðfest að Hafkalk noti einungis viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinum vottuðu vörum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um framleiðslu náttúruvara, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.“

Ekki er annað hægt að sjá en að um mjög eðlilega markaðssetningu sé að ræða á þessum vörum, enda ber að hafa í huga að hér er verið að selja bætiefni og snyrtivörur – hvergi er gefið í skyn að um lyf sé að ræða.

Spennandi nýsköpun

Í skýrslu Íslandsstofu um kortlagningu á útflutningsfyrirtækjum sem nota útdrætti úr jurtum, dýrum, örverum og steinefnum í framleiðslu sína (http://www.islandsstofa.is/files/natturu-extract-skyrsla-mai-2013.pdf) er ályktað að tækifærin  fyrir íslenska nýsköpun á þessu sviði séu mýmörg, að nýsköpun og frumkvöðlahugsun sé ríkjandi og að fyrirtækin leiti leiða til að nýta hráefnin betur og búa til vörur sem eru vel samkeppnishæfar á alþjóðavísu. Öll fyrirtækin þrjú (Saga Medica, Hafkalk og Villimey) tóku þátt í úttektinni.

Þess má geta að bæði Villimey of Hafkalk hafa fengið styrki frá Byggðastofnun fyrir markaðssetningu náttúruvara erlendis. Hafkalk fékk aðstoð frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða í upphaf verkefnisins. Þess má einnig geta að Hafkalk ehf. hlaut silfurverðlaun á norrænni nýsköpunarsýningu „Natural Products Scandinavia“ í fyrra fyrir vöruna Haf-Ró í flokknum „Bestu nýju heilsu- og fæðubótarefnin“. Saga Medica hlaut árið 2009 sérstaka viðurkenningu frá Samtökum Iðnaðarins, Háskólanum í Reykjavík og Rannsóknamiðstöðvar Íslands fyrir að vera eitt af þeim sprotafyrirtækjum sem höfðu sýnt mesta veltuaukningu (Vaxtarsprotinn 2009).

Allt þetta hefði fréttamaðurinn átt að kanna áður en fréttin var birt. Það þarf að gera greinarmun milli viðurkenndra bætiefna og vandaðra snyrtivara og ekki bera saman við jónað vatn og álíka vitleysu. Hér er um mjög óábyrga og óvandaða fréttamennsku að ræða sem getur haft slæm áhrif á ört vaxandi nýsköpunargrein á Íslandi. Eðlilegt væri að RÚV myndi draga fréttina til baka og gefa öllum þremur fyrirtækjunum tækifæri að svara fyrir sig í sjöfréttum dagsins.

Rétt er að taka fram að undirrituð hefur engin tengsl né hagsmuni að gæta við umrædd fyrirtæki.

Birt:
March 6, 2015
Höfundur:
Anne Marie Sparf
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Anne Marie Sparf „Fullyrðingar RÚV um „ósannaða virkni ýmissa vara í apótekum“ stenst ekki skoðun“, Náttúran.is: March 6, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/03/06/fullyrdingar-ruv-um-osannada-virkni-ymissa-vara-i-/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: