Sambýli í garðinum
Samrækt er hugtak sem t.a.m. er notað yfir samrækt jurta og fiska en getur einnig tekið til þess hvaða jurtir hjálpa hvorri annarri, hverjar passi vel saman af ýmsum ástæðum. Hugtakið companion planting mætti einnig þýða sem sambýlisræktun. Við getum notað það til að aðgreina það frá plöntu- og fiskeldinu.
Það er út af fyrir sig merkilegt hve lítið er talað um þessi fræði í samtímanum, ekki síst vegna þess hve þau virðast í raun vera mikilvæg því auðvitað hlítur að skipta máli hvernig jurtir plumma sig saman eða ekki, hvernig ein veitir annarri það sem hana skortir eða hvaða jurt getur bægt óværu frá annarri.
Ég er búin að vera forvitin um þetta lengi en hafði ekki rekist á nógu aðgengilegt efni sem hægt væri að nýta sér í praxís. Nú er ég rétt að byrja að skoða þetta af alvöru og gera tilraunir í mínum eigin garði. Mig langar því að deila nokkrum uppgötvunum hér á Náttúrunni og mun síðan halda áfram eftir því sem að reynslan kennir mér hvað gengur vel og hvað ekki.
Á vefnum ghorganics.com fann ég þátt um sambýlisræktun (companion planting) sem listar upp jurtir í stafrófsröð og segir í einföldum texta hvaða jurt passar vel með hverri og hverjar ekki. Jafnvel þó að mikið af þeim jurtum sem þarna er fjallað um vaxi ekki á Íslandi eru þó heilmargar sem hér vaxa og læra má heilmikið af.
Dæmi:
Tómatjurtum og baunum, lauk, spínati og timían líður vel saman (má prófa í gróðurhúsum hér á landi). Í vikunni prófaði ég að setja tómata, baunir, graslauk og gúrkuplöntu saman í beð í einfalda plastgróðurhúsinu mínu.
Jarðarber, baunir og laukur eru góðir grannar. Ég setti jarðarber, baunir og graslauk saman í beð í eldhúsgarðinn minn.
Ég vona svo bara að sambúðin gangi vel hjá þessum grænu kommúnum og held áfram að gera tilraunir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sambýli í garðinum“, Náttúran.is: June 5, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/06/05/sambyli-i-gardinum/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 6, 2015