Sáð í takt við tunglið. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.Stöðu tunglsins er skipt í fjórðunga. Hver fjórðungur er sjö sólarhringar, enda tunglmánuðurinn 28 sólarhringar. Tvo fyrri fjórðungana er tunglið vaxandi og birtustig þess eykst. Tvo seinni fjórðungana er tunglið aftur á móti minnkandi og birtustig þess minnkar.

Vanir ræktendur vita að staða tunglsins hefur áhrif á gróðurinn og erlendis, þar sem skil dags og nætur á sumrin eru meiri en hér á landi, notfæra margir sér þetta til að auka gróskuna í ræktuninni. Líkt og tunglið hefur áhrif á flóð og fjöru er líklegt að það hafi áhrif á vatn í jarðvegi, vatnsupptöku og vöxt gróðursins.

Nýtt og vaxandi tungl dregur vatn upp úr jarðveginum sem veldur því að fræ spíra betur. Á nýju tungli er gott að setja niður matjurtir sem vaxa ofanjarðar og fræ sem vaxa utan við aldin. t.d. salat, spínat, sellerí, blómkál og korn.

Eftir því sem tunglið vex minnkar aðdráttarafl þess en birtustig þess eykst. Erlendis, þar sem ekki er bjart á sumrin, eykur birtustigið blaðvöxt. Þá er góður tími til að setja niður baunir, melónur, papriku og tómata. Gott er að slá grasið á þessum tíma til að auka grósku.

Aðdráttarafl tunglsins eykst þegar það er fullt en birtustigið fer minnkandi um leið og tunglið minnkar. Þá er góður tími til að setja niður rótarávexti, eins og gulrætur, lauk, rófur og kartöflur. Einnig er gott að setja niður haust- og vorlauka, túlípana, hátíðarliljur, krókusa og dalíur svo dæmi séu tekin, sem og að skipta og flytja fjölærar plöntur og klippa runna og limgerði.

Við minnkandi tungl dregur úr aðdráttarafli þess og er það stundum kallaður hvíldartími. Þá er góður tími til að losa um arfa og flytja og klippa tré. Þá er líka rétti tíminn til að taka uppskeruna í hús.

Birt:
June 8, 2015
Höfundur:
Vilmundur Hansen
Tilvitnun:
Vilmundur Hansen „Tunglið og gróðurinn“, Náttúran.is: June 8, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2015/06/08/tunglid-og-grodurinn/ [Skoðað:April 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: