Skjáskot af heimasíðu Nesbúeggja nesbu.is.Vottunarstofan Tún ehf. hefur staðfest að framleiðslustoð Nesbúeggja ehf. í Miklholtshelli II uppfylli reglur um framleiðslu á lífrænum eggjum. Vottorð þessa efnis var formlega afhent þ. 25. janúar 2016.

Nesbúegg ehf. er fyrsti íslenski stórframleiðandinn sem hlýtur slíka vottun og hefur markaðssetningu á lífrænum eggjum.

Með vottun Túns er staðfest að egg sem hið lífræna bú framleiðir og markaðssetur sem lífræna vöru komi úr varphænum sem aldar eru á vottuðu lífrænt ræktuðu fóðri og öðrum náttúrulegum aðföngum. Fuglarnir njóta reglubundinnar útivistar, mun meira rýmis en gengur og gerist, og náttúrulegs undirburðar í húsum. Allur aðbúnaður lýtur ströngum kröfum um velferð fuglanna.

Jafnframt uppfyllir Nesbúegg ehf. alþjóðlegar kröur um gæðastjórnun, skráningar og aðfanganotkun við meðferð, pökkun og merkingar lífrænna afurða.

Nesbúegg ehf.

Nesbúegg ehf. var stofnað árið 1971, þá undir nafninu Nesbú hf., en það er nú einn stærsti framleiðandi eggja í landinu. Fyrirtækið sérhæfir sig í eldi á varphænum, allt frá ungaeldi til eggjaframleiðslu. Starfsemi þess fer annars vegar fram í Vogum á Vatnsleysuströnd, og hinsvegar í Miklholtshelli í Flóa. Þá rekur fyrirtækið einnig pökkunar- og vinnslustöðvar á sömu stöðum fyrir fersk, gerilsneydd og soðin egg og ýmsar aðrar eggjaafurðir. Nú síðast stofnaði fyrirtækið sérstaka aðgreinda stöð til lífrænnar eggjaframleiðslu í Miklholtshelli II.

Stefán Már Símonarson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að Nesbúegg ehf. hafi um langt skeið haft aukna velferð og næringargæði afurða á stefnuskrá sinni:

„Ákvörðun okkar um að hefja lífræna framleiðslu með stofnun sérstakrar lífrænnar eggjaframleiðslustöðvar er rökrétt framhald og liður í þeirri stefnu okkar að bæta aðbúnað fuglanna. Jafnframt viljum við með þessu koma til móts við hinn ört vaxandi hóp neytenda sem kallar eftir lífrænum afurðum.“

Lífræn framleiðsla á Íslandi

Merki lífrænnar vottunar Vottunarstofunnar Túns.Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.

Vottunarstofan Tún ehf. hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjum árið 2006. Á þessu tímabili hafa á annað hundrað fyrirtæki og bændur hlotið vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu, svo og sjálfbærar sjávarnytjar og rekjanleika sjávarafurða úr vottuðum fiskistofnum.

Vottunarstofan Tún ehf. fagnar því að Nesbúegg ehf. í Miklholtshelli II skuli nú bætast í hóp vottaðra íslenska fyrirtækja sem þjóna vaxandi markaði fyrir lífræn matvæli.

Sjá hér á Lífræna kortinu yfirliti yfir alla þá sem í dag hafa virka vottun (Vottað lífrænt).

Birt:
Jan. 28, 2016
Tilvitnun:
Vottunarstofan Tún ehf „Lífrænt vottuð egg loks á markað hér á landi – Nesbúegg ehf“, Náttúran.is: Jan. 28, 2016 URL: http://www.nature.is/d/2016/01/25/lifraent-vottud-egg-loks-markad-her-landi-nesbuegg/ [Skoðað:July 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 25, 2016

Messages: