Ásdís Illugadóttir afhendir oddvita unndirskriftalistana.Liðlega tvö hundruð íbúar í Mývatnssveit lýsa andstöðu við að byggt verði stórt hótel á bakka Mývatns við Hótel Reykjahlíð. Framkvæmdin gangi gegn anda laga um verndun Mývatns og Laxár. Byggingin er samkvæmt teikningu öll langt innan 200 metra verndarlínu laganna. Íbúarnir telja að hún muni spilla útsýni til vatnsins og ímynd sveitarinnar. Samþykkt áformanna skapi hættulegt fordæmi varðandi framkvæmdir á verndarsvæðinu. 

Undirskriftum var safnað meðal íbúa með lögheimili í Skútustaðahreppi sem eru 18 ára og eldri. Samtals skrifuðu 202 eða 66% íbúanna undir. Fimmtíu og átta, eða 19% höfnuðu þátttöku. Ekki náðist til 45 íbúa og nokkrir tóku ekki þátt vegna trúnaðarstarfa sem þeir hafa með höndum. Samtals eru það um 15% íbúa. Söfnun undirskrifta hófst laugardaginn 25. júní en lauk 12. júlí þegar Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti hreppsnefndar tók við undirskriftalistunum úr hendi Ásdísar Illugadóttur. Yngvi Ragnar þakkaði söfnurum undirskriftanna fyrir að sýna málefnum sveitarfélagsins áhuga. Auðvitað verði hlustað á það sem verulegur meirihluti íbúanna segi.

Textinn sem fólk undirritaði er eftirfarandi:

„Við undirrituð, íbúar í Skútustaðahreppi, leggjumst gegn áformaðri byggingu við Hótel Reykjahlíð. Byggingin gengur gegn anda laga um verndun Mývatns og Laxár þar sem 200 metra bakki er friðaður. Hún spillir útsýni til vatnsins og er brot á þeirri reglu að hefja atvinnurekstur ekki vatnsmegin vegar.  Þótt talað sé um viðbyggingu er öllum ljóst að hér er annað og meira á ferðinni.  Samþykki fyrirliggjandi deiluskipulagstillögu myndi setja hættulegt fordæmi. Við skorum því á sveitarstjórn og skipulagsnefnd að stöðva þegar í stað umfjöllun um hana.“

Slóð á uppdætti af áformaðri byggingu á heimasíðu sveitarfélagsins:  

 

Birt:
July 12, 2016
Tilvitnun:
Hjördís Finnbogadóttir „Hafna nýju hóteli á bakka Mývatns“, Náttúran.is: July 12, 2016 URL: http://www.nature.is/d/2016/07/12/hafna-nyju-hoteli-bakka-myvatns/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: