Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands haldinn Reykjavíkur-Akademíunni 22. ágúst 2016, lýsir eftir loftslagsstefnu stjórnvalda.

Við undirbúning og eftirfylgd Parísarráðstefnunnar hafa íslensk stjórnvöld ekki kynnt skýr markmið um hversu mikið Ísland hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (ghl) á tímabilinu 2021–2030. Einungis hefur komið fram að Ísland muni taka þátt í sameiginlegu markmið aðildarríkja ESB um samdrátt í losun ghl. um 40% fyrir árið 2030, miðað við 1990.

Nýjustu skýrslur umhverfisyfirvalda sýna að frá 1990 hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist verulega hér á landi. Losun vegna flutninga á vegum hefur aukist um 50%, losun frá samgöngum í heild hefur aukist um 39% og losun frá úrgangi hefur aukist um 35%.
Bílainnflutningur slær nú öll met, ekki síst innflutningur á stærri gerðum lúxusbíla sem menga mikið. Þessir bílar verða á götunum árið 2030 þegar skuldbindingartímabil Parísar-samkomulagsins lýkur. Engin stefna hefur verið mótuð til að hafa áhrif á þessa þróun.

Þrátt fyrir þann góða árangur sem náðist á Parísar-ráðstefnunni er vert að hafa í huga að markmið þess um samdrátt duga ekki til að halda hlýnun andrúmsloftsins undir 2°C að meðaltali líkt og samþykkt var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009, hvað þá 1,5°C líkt og Parísar-samkomulagið kveður á um. Í besta falli mun Parísar-samkomulagið, í núverandi mynd, takmarka hlýnunina við 2,7 gráður.
Með öðrum orðum; aðildarríki loftslagssamningsins verða að gera enn betur ef þau ætla að halda hlýnun undir 2°C, sem í tilfelli Evrópusambandsins felur í sér 55% samdrátt fyrir árið 2030.

Íslenskir ráðamenn halda því mjög á lofti að hlutfall hreinnar orku á Íslandi sé hið hæsta í heimi, eða 71%. Í Noregi er hlutfallið 69%. Engu að síður hafa norsk stjórnvöld lýst því yfir að þau muni draga úr losun um 40%, óháð samningum við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði þess um 40% samdrátt.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands áréttar kröfu sína um að stjórnvöld móti sér skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og kynni markmið sín opinberlega, hið fyrsta.

Birt:
Sept. 2, 2016
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands um vöntun á loftslagsstefnu stjórnvalda“, Náttúran.is: Sept. 2, 2016 URL: http://www.nature.is/d/2016/09/02/alyktun-adalfundar-natturuverndarsamtaka-islands-u/ [Skoðað:May 21, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: