Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði gesti á málþinginu.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær málþingið „Green to Scale“ í Norræna húsinu þar sem kynntar voru norrænar loftslagslausnir sem dregið geta úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Norræna „Green to Scale“ verkefnið var kynnt á Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Marrakech (COP22) í nóvember síðastliðnum. Á málþinginu kom fram að með því að beita 15 norrænum loftslagslausnum, sem þegar hafa sannað sig, geta ríki heims dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 4 gígatonn á ári fyrir árið 2030, en það jafngildir losun Evrópusambandsins í dag. Kostnaðurinn við að útfæra þessar lausnir næmi niðurgreiðslum ríkja heims á jarðefnaeldsneyti í 9 daga.

Sagði ráðherra að ljóst væri að kostnaðurinn við að halda að sér höndum í loftslagsmálum væri miklu meiri en kostnaðurinn við að grípa til aðgerða. Hún vildi að Ísland yrði leiðandi í því að nýta loftslagsvænar lausnir: „Til þess að það verði að veruleika þurfum við leiðtoga sem beita sér fyrir slíkum lausnum - í borgum og sveitum, í skólum og atvinnulífi. Við þurfum alla með.“

Á málþinginu kynnti Oras Tynkkynen, ráðgjafi og verkefnisstjóri hjá SITRA,  Nýsköpunarsjóði Finnlands, rannsóknarniðurstöður „Nordic Green to Scale“ verkefnisins og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um þær íslensku loftslagslausnir sem sérstaklega eru tilgreindar í verkefninu. Þá voru flutt stutt örerindi um loftslagsmarkmið Reykjavíkurborgar, um umbreytingu koltvísýrings í endurnýjanlegt eldsneyti hjá Carbon Recycling International og um CarbFix verkefnið svokallaða sem gengur út á að binda koltvísýring varanlega í jarðlögum.  Að loknum fyrirlestrum voru líflegar pallborðsumræður.

Málþingið var haldið í Norræna húsinu í samstarfi við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og upplýsingaskrifstofuna Norðurlönd í fókus og var endurtekið í Hofi á Akureyri í dag.  

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um norrænarloftslagslausnir: Green to Scale 

Birt:
Jan. 20, 2017
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „„Við þurfum alla með“ – ráðherra ávarpar norrænt málþing um loftslagsmál“, Náttúran.is: Jan. 20, 2017 URL: http://www.nature.is/d/2017/01/20/vid-thurfum-alla-med-radherra-avarpar-norraent-mal/ [Skoðað:Oct. 7, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: