Boðað til grænnar göngu þann 1. maí
Miðvikudaginn 1. maí verður græn ganga á vegum samtaka um náttúru- og umhverfisvernd. Gangan verður farin niður Laugaveg í kjölfar kröfugöngu verkalýðsfélaganna. Í lokin verður grænum fánum stungið niður á Austurvelli við Alþingi. Göngumenn eru hvattir til að mæta í einhverju grænu. Hist verður á Snorrabraut við Hlemm kl. 13. Gangan hefst hálftíma síðar.
Efnt er til grænnar göngu til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar. Á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar er að náttúru Íslands verði hlíft.
Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál lítið rædd þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni lítinn stuðning við áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þannig reyndust 44% aðspurðra andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi í nýlegri könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Landvernd. Í sömu könnun sögðust 51,3% vera andvíg því að fleiri álver yrðu reist hér á landi en 30,9% voru því hlynnt.
Eftirfarandi samtök standa að grænu göngunni: Landvernd, Ungir umhverfissinnar, Alda - félag um sjálfbærni og lýðræði, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktin, Sól á Suðurlandi og Græna netið.
Skráðu þig í grænu gönguna á Facebook.
Ljósmynd: Séð yfir áætlað virkunarstæði Bjarnarflagsvirkjunar.
Birt:
Uppruni:
Náttúruverndarsamtök ÍslandsSUNN - Samtök um náttúruvernd Norðurlands
Náttúruverndarsamtök Austurlands
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Framtíðarlandið
Fuglavernd - Fuglaverndarfélag Íslands
Landvernd
Sól á Suðurlandi
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Boðað til grænnar göngu þann 1. maí“, Náttúran.is: May 1, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/04/28/bodad-til-graennar-gongu-thann-1-mai/ [Skoðað:Oct. 15, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 28, 2013
breytt: May 3, 2013