Hægðatregða stafar oft af röngu mataræði, hreyfingarleysi og skorti á gróf- og hrámeti sem örvar stórþarma. Hægðatregða getur verið vísbending um sjúkdóm í stórþörmum og einnig getur óvirk lifur orsakað hægðatregðu. Ef orsökina er að finna í stórþörmum getur hún annað hvort verið van- eða ofvirkur ristill.

Vanvirkan ristil má yfirleitt örva með reglulegum líkamsæfingum og styrkjandi jurtum, d.d. túnfífli, vatnsarfagrasi, jarðarberjum, undafífli, njóla, engiferjurt, járnurt og lakkrísrót.

Ristill getur orðið ofvirkur vegna langvarandi streitu og einnig má oft rekja orsökina til þess að fólk hefur tamið sér að halda í sér hægðum. Góðar jurtir gegn þessu eru róandi og vöðvaslakandi jurtir, s.s. humall, úlfarunni, kamilla, járnurt og garðabrúða. Þá er einnig gott að nota lifrarörvandi jurtir, s.s. túnfífill (rót) og lakkrísrót með fyrrnefndum jurtum.

Dæmi um jurtalyfjablöndu gegn hægðatregðu:

2 x túnfífill (rót)
2 x lakkrísrót
1/4 x engiferjurt
1 x njóli og humall eða úlfarunni ef þörf er á vöðvaslakandi jurtum.

Nauðsynlegur þáttur í meðferð hægðatregðu er að styrkja ristilinn. Borðið reglulega á sama tíma á hverjum degi og farið jafnan á salernið eftir morgunmat. Hafragrautur með hör-, sesam- og sólblómafræi og hveitikími er hollur morgunmatur og bætir starfsemi ristilsins. Með grautnum má hafa mjólk og kanil, sem einnig er mjög styrkjandi fyrir ristilinn. (Hafið í huga að fólk með glútenóþol þolir ekki hafragraut).

Birt:
April 13, 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Hægðatregða“, Náttúran.is: April 13, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/04/13/hgatreg/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 22, 2008

Messages: