Segir athugasemdirnar misskilning
Oddviti Rangárþings ytra segir sveitarfélagið ekki hafa gert athugasemdir við friðlýsingu Þjórsárvera heldur örlitlar ábendingar. Umhverfis- og auðlindaráðherra segist vilja vanda til verka og hlýða á hagsmunaaðila.
Í Morgunútvarpinu á Rás tvö kom fram að Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, hafi frestað friðlýsingu Þjórsárvera. Hann sagði alvarlegar athugasemdir hafa komið frá tveimur sveitarfélögum ásamt Landsvirkjun. Sveitarfélögin eru Rangárþing Ytra og Skagafjörður.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti Ragnárþings Ytra segist hins vegar ekki hafa gert athugasemdir við friðlýsinguna. „Nei, ég get ekki útskýrt það, ekki nema ráðherrann eigi við örlitlar ábendingar sem sveitarstjóri okkar sendi til hans,“ sagði Guðmundur.
Þær ábendingar snerust um að sveitarstjórnin tæki enga afstöðu til Norðlingaölduveitu en friðlýsing hefði þýtt að þær fyrirætlanir væru úr sögunni. Guðmundi Inga þykir ekki gott að talað sé um þessa litlu ábendingu sem athugasemd við friðlýsinguna, og segir að það byggist líklega á því að hún hafi misskilist.
Í fundargerð sveitarstjórnar Skagafjarðar frá því í maí kemur fram að stækkun Þjórsárvera og friðlýsingarskilmálar hafi verið samþykktir með níu atkvæðum sveitarstjórnarmeðlima. Bjarni Jónsson oddviti segir að einu ábendingarnar sem sveitarstjórn Skagafjarðar hafi sent ráðuneytinu lúti að ferlinu sjálfu en breyti ekki afstöðu sveitarfélagsins til friðlýsingar svæðisins.
Ljósmynd: Úr Þjórsárverum, af vef Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „Segir athugasemdirnar misskilning“, Náttúran.is: June 22, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/06/22/segir-athugasemdirnar-misskilning/ [Skoðað:Dec. 8, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.