Á leið heim úr vinnunni í gær kom ég við í matvöruverslun til að kaupa rúsínur og fleira góðgæti til heimilisins. Þar sá ég hvar allsendis óvottuðum rúsínum frá fyrirtækinu Heilsa ehf. hafði verið stillt upp innan um lífrænt vottaðar rúsínur og aðrar slíkar vörur í hillu, sem mér hefur skilist að sé sérstaklega ætluð lífrænt vottuðum vörum og e.t.v. heilsuvörum. Umræddur rúsínupoki var kyrfilega merktur með áletruninni „100% náttúrulegt“, en á pokanum var hins vegar engin önnur áletrun sem staðfesti þessa yfirlýsingu um innihaldið. Þetta er dæmi um það sem kallað er „grænþvottur“ (e. greenwash). Ég hef svo sem séð þessar rúsínur þarna áður, en bara ekki komið því í verk að blogga um þær.

Verslunin sem í hlut á er Nettó í Borgarnesi. Þar er jafnan gott úrval af lífrænt vottuðum vörum, sérstaklega í fyrrnefndri hillu. Þangað ven ég komur mínar tíðum. Ég er nokkuð viss um að þessi staðsetning óvottaða rúsínupokans var ekki til þess ætluð að villa um fyrir kaupandanum, heldur finnst mér líklegra að starfsfólk verslunarinnar hafi ekki áttað sig á tómarúminu á bak við orðin „100% náttúrulegt“ og því sett pokann þarna í þeirri góðu trú að hann væri vel að þessari staðsetningu kominn. Réttara hefði verið að setja hann í hilluna þar sem öllum hinum rúsínunum sem ekki eru lífrænt vottaðar er stillt upp. Þrjár slíkar tegundir fengust í Nettó í gær.

Orðin „100% náttúrulegt“ þýða í stuttu máli ekki neitt, eða þá bara hvað sem er, eftir því hvernig hver og einn kýs að skilja þau. Engin samræmd skilgreining er til á þessum orðum, og því geta framleiðendur notað þau að vild án þess að vera beinleinis að ljúga að einum né neinum. Hins vegar gefur þessi áletrun óneitanlega til kynna að varan sé á einhvern hátt náttúrulegri en önnur vara til sömu nota. Í því felst grænþvotturinn í þessu tilviki, þ.e.a.s. í því að nota áletrun sem villir um fyrir neytendum og fær þá til að ofmeta umhverfislegt ágæti vörunnar. Ég hef áður skrifað sitthvað um grænþvott, m.a. í all ítarlegri bloggfærslu frá 5. nóvember 2011, þar sem ég reyndi að útskýra fyrirbærið. Grænþvegnu rúsínurnar myndu flokkast þar sem „Grænþvottasynd nr. 3:  Óræð skilaboð (e. Sin of Vagueness)“, en sú synd er drýgð með því að nota orð eða hugtök sem hafa svo óljósa eða breiða merkingu að auðvelt sé að misskilja þau eða oftúlka.

Skilaboð dagsins eru þessi: Yfirlýsingar framleiðenda eða seljenda vöru um umhverfislegt ágæti vörunnar eru lítils virði nema þær séu staðfestar af óháðum aðila. Það er ekki bannað að segja að einhver vara sé „100% náttúruleg“, en þau orð hafa nákvæmlega enga þýðingu. Þau eru í besta falli sett fram í hugsunarleysi, en í versta falli vísvitandi til að blekkja neytendur. Verslanir sem láta glepjast af slíkum yfirlýsingum auka enn á áhrif „syndarinnar“.


Þessum rúsínupakka tókst að villa á sér heimildir og stilla sér upp á milli tveggja pakka af lífrænt vottuðum rúsínum.


Hillan góða í Nettó. Mæli með henni, en mæli líka með gagnrýnu hugarfari.

Sjá nánar um „grænþvott“ hér.

Birt:
June 26, 2013
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „100% náttúrulegur grænþvottur“, Náttúran.is: June 26, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/06/26/100-natturulegur-graenthvottur/ [Skoðað:Sept. 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: