Skilagjald fyrir einnota drykkjarumbúðir er 50 til 357 prósentum hærra í Danmörku en hér á landi, þar sem gjaldið er 14 krónur. Skilagjaldið hér á að hækka með neysluvísitölu og mun væntanlega hækka um eina krónu á næstunni.

Íslendingar eru duglegir við að skila inn einnota umbúðum en um 90 prósent einnota umbúða skila sér til Endurvinnslunnar ár hvert. Skilagjaldið á Íslandi er 14 krónur en í Danmörku er það allt frá tuttugu og einni krónu upp í sextíu og fjórar krónur, allt eftir gerð og stærð umbúðanna. Munurinn er 50 til 357 prósent.

Endurvinnslan selur um 700 tonn af áli og 1.800 tonn af plasti á ári til frekari endurvinnslu í útlöndum og er velta fyrirtækisins um 260 milljónir króna á ári. Verð á áli ræður miklu um hag fyrirtækisins en það er fremur lágt um þessar mundir. Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar segir skilagjaldið hér bundið lögum og hækki með neysluvísitölu. Það hafi verið  5 krónur þegar gjaldið var tekið upp árið 1989.

"Við höfum reyndar sjálfir óskað eftir hækkun á þessu gjaldi, en það er eins og ég segi ákveðið samkvæmt lögum. Nú er reyndar verið að vinna í að breyta þessum lögum þannig að þetta gæti orðið frjálst. En ég er hins vegar ekki alveg sammála því að gjaldið á Norðurlöndunum sé endilega besta gjaldið," segir Helgi. Víðs vegar um Evrópu utan Norðurlandanna og í Bandaríkjunum sé gjaldið svipað og hér. En væri ekki meira hvetjandi fyrir fólk að skila inn umbúðum ef gjaldið væri t.d. 20 krónur?

"Það má alveg velta því fyrir sér. Við sjáum að við erum ekki langt frá Norðurlöndunum í skilum. Við erum með um 90 prósent skil á áli og um 87 prósent í plasti. Þetta er keimlíkt og á hinum Norðurlöndunum sem eru með 90 plús. Þannig að hvatinn þar liggur kannski í því að skilagjaldið er hærra og móttökustaðirnir eru fleiri," segir Helgi.

Helgi býst reyndar við að gjaldið hækki í 15 krónur á næstunni, en um ár er liðið frá því Endurvinnslan óskað eftir því við umhverfisráðuneytið að fá heimild til að hækka gjaldið.

Grafík: Skilagjald greitt út, merki um alla þá staði sem greiða út skilagjald. Af Endurvinnslukorti og Endurvinnslukorts-appi Náttúran.is. Grafík Guðrún A. Tryggvadóttir. Ná í Endurvinnslukorts-appið fyrir iPhone og iPad ókeypis í iStore. Smella hér.

Birt:
July 24, 2013
Höfundur:
Vísir.is
Uppruni:
Vísir.is
Tilvitnun:
Vísir.is „Skilagjald 357 prósentum hærra í Danmörku en á Íslandi“, Náttúran.is: July 24, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/07/24/skilagjald-357-prosentum-haerra-i-danmorku-en-isla/ [Skoðað:Feb. 25, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: