Fyrstu helgina í október fer fram tveggja daga alþjóðlegur viðburður þar sem sjálfboðaliðar í náttúruvernd koma saman og láta gott af sér leiða undir yfirskriftinni The Big Green Weekend.

Það er CVA (Conservation Volunteers Alliance) sem stendur fyrir þessum atburði og er nú haldinn í þriðja sinn. Umhverfisstofnun er einn af stofnendum og meðlimum CVA.

Markmiðið með Grænu helginni (The Big Green Weekend) er m.a. að vinna saman í þágu náttúruverndar, efla samstarf milli hópa, að kynnast sjálfboðaliðastarfi annarra og síðast en ekki síst ræða saman um náttúruvernd á Íslandi. Stofnunin hefur áhuga á að efla íslenskt sjálfboðaliðastarf og hefur óskað eftir samvinnu og þátttöku íslenskra náttúruverndarsamtaka sem og nemenda við Fjölbrautaskólann við Ármúla og Menntaskólann við Hamrahlíð.

Sjálfboðaliðum verður skipt í teymi sem munu vinna sjálfboðaliðastörf við Esjuna og í Reykjanesfólkvangi (og hugsanlega á öðrum friðlýstum svæðum innan höfðuborgarsvæðisins). Hvert teymi verður með liðsstjóra sem eru annað hvort landverðir eða verkstjórar í náttúruvernd (sjálfboðaliðar).

Helstu verkefni: Göngustígagerð, hreinsa gróður, afmörkun göngustíga, endurheimt mosagróðurs og hreinsun svæða.

Umhverfisstofnun útvegar vinnuhanska, regngalla, nesti (samlokur, kaffi og kex). Þátttakendur eru vinsamlega beðnir um að koma með eigin vatnsbrúsa og klæða sig eftir veðri.

Allir geta tekið þátt og þú getur skráð þig með því að senda póst á ust@ust.is eða í gegnum vefinn og er frestur til miðnættis þann 3. október. Vinsamlega setijð Tek þátt í Grænu Helginni sem efni (subject) og tilgreinið eftirfarandi upplýsingar:

    Fullt nafn
    Sími (helst farsímanúmer)
    Netfang
    Samtök/skóli (ef við á)
    Hvort þið getið verið á bíl
    Grænmetisæta/kjötæta

Dagskrá

Laugardagur 5. október - Mæting kl. 9 að Suðurlandsbraut 24. Skipt verður niður í hópa og verkefnin kynnt stuttlega. Sjálfboðaliðar sameinast í eigin bíla, hver hópur fer á sitt svæði  og verður unnið þar til verkefnin eru búin en ekki lengur en til kl. 16.30.

Sunnudagur 6. október - Mæting kl. 9 að Suðurlandsbraut 24. Haldið á ný á vinnusvæði og unnið til kl.15. Leiðinni haldið aftur á Suðurlandsbraut þar sem Grænu Helginni verður fagnað með köku og kaffi og rætt um sjálfboðaliðastörf og náttúruvernd.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Birt:
Oct. 3, 2013
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Græna helgin“, Náttúran.is: Oct. 3, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/10/03/graena-helgin/ [Skoðað:May 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: