Nýtnivikan verður haldin hér á landi vikuna 16. - 24. nóvember en markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Vikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur.

Daglegar venjur hvers og eins hefur áhrif á umhverfið. Til dæmis er hægt  að draga verulega úr pappírsúrgangi með því að afþakka fjöldapóst, endurnýta gjafapappír og draga úr prentun.

Efnt verður til samkeppni um Best nýtta pappírinn en leikurinn verður á Facebook síðu Reykjavíkurborgar, en þar geta allir tekið þátt og sett inn mynd af pappír eða pappa sem er vel nýttur eða fengið hefur nýtt hlutverk. Einnig stendur til að endurvekja gömul orð en í ár fellur Dagur íslenskrar tungu inn í Nýtnivikuna og það felur í sér ýmis tækifæri til að tengja þetta tvennt saman.

Listasmiðja barna verður í Norræna húsinu sunnud. 17. nóvember, en þar skapa börn list úr pappír.
Sorpa tekur þátt í Nýtnivikunni auk Reykjavíkurborgar, Kvenfélagasambands Íslands, Neytendasamtökunum, Landvernd og Umhverfisstofnun ásamt öðrum sveitarfélögum á Íslandi og í Evrópu. Vikan verður helguð meiri nýtni á pappír og að dregið sé úr myndun pappírsúrgangs.

Á vef Kvenfélagasambands Íslands www.leidbeiningastod.is má finna ýmis ráð til að nýta betur mat, viðhalda húsbúnaði, ná blettum úr fötum og margt fleira nytsamlegt. Kynntu þér umhverfismerkingar á www.ust.is.

Birt:
Nov. 18, 2013
Höfundur:
SORPA bs
Uppruni:
SORPA bs
Tilvitnun:
SORPA bs „Nýtnivika - nýtum og njótum“, Náttúran.is: Nov. 18, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/11/18/nytnivika-nytum-og-njotum/ [Skoðað:Feb. 21, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: