Farfuglaheimilið Loft við Bankastræti hefur fengið afhenta vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi Farfuglaheimilisins er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson veitti vottunina við hátíðlega athöfn á Loft föstudaginn 22.11.

Loft er nýtt Farfuglaheimili í Bankastræti 7 með gistirými fyrir allt að 100 gesti í vel búnum 2- 8 manna herbergjum með baði. Loft er á þremur efstu hæðunum í gamla Samvinnubankahúsinu og af svölunum er einstakt útsýni yfir miðborgina. Á efstu hæðinni er bar og kaffihús opið alla daga og allir eru velkomnir.

„Mikill metnaður liggur hjá Farfuglunum, sem endurspeglast í að Farfuglaheimilunum í þeirra eigu er unnið frábært starf, og frammistaðan er eftirtektarverð. Efnanotkun er í lágmarki, orku og vatnsnotkun. Það vekur sérstaka athygli hversu vel gengur að flokka úrgang hjá Farfuglaheimilum þar sem svo margir gestir koma og dvelja aðeins í fáa daga í senn. Það er jafnframt ánægjulegt að sjá hversu vel Farfuglunum hefur gengið að miðla upplýsingum um umhverfisstarfið, tengja það við stóra samhengi hlutanna og hve miklu máli það skiptir fyrir okkur öll að gera það sem í okkar valdi stendur til að stuðla að betra umhverfi og sjálfbærni. Það telst sérstaklega góður árangur að einungis 6 mánuðum eftir opnun Lofts hafi verið unnt að sýna fram á að byggðir hafa verið upp gæðaferlar og að starfsemin uppfylli umfangsmiklar kröfur Svansins.” segir Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Fyrir Farfugla er Norræna umhverfisvottunin ein af meginforsendum trausts reksturs til framtíðar.

„Loft var hannað með það að leiðarljósi að uppfylla þarfir nútíma ferðamannsins og hlutverk samtakanna, sem er að tengja fólk saman í kringum umræðu, menningu og umhyggju. Svansvottunin í dag og viðbrögð gestanna okkar fyrstu mánuðina vísa til þess að okkur hafi tekist það. Alþjóðasamtök Farfuglaheimila - Hostelling International (HI) skera sig úr með því að biðja gesti sem bóka HI Hostelin um að gefa þeim einkunn eftir því hvernig þau þykja standa sig í umhverfismálum. Loft hefur verið á Topp10 lista yfir HI Hostel hjá gestum frá opnun og skorað þar hæst á þjónustu, staðsetningu og sjálfbærni. Svansvottunin er gæðavottun sem stuðlar að öruggu og skapandi vinnuumhverfi, jafnfram því sem hún er trygging viðskiptavinarins fyrir því að kröfum á fjölmörgum sviðum sjálfbærni sé mætt” segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Lofts.

Ljósmynd: Við afhendingu Svansins í dag, Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra og Sigríður Ólafsdóttir  rekstrarstjóri Lofts ásamt starfsfólki Farfuglaheimilisins.

Skoða fleiri myndir frá Loft farfuglaheimili.

Birt:
Nov. 22, 2013
Tilvitnun:
Sigríður Ólafsdóttir „Farfuglaheimilið Loft fær Svansvottun“, Náttúran.is: Nov. 22, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2013/11/22/farfuglaheimilid-loft-faer-svansvottun/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: