Yfirlýsing um stefnu Íslands í olíumálum
Þriðja sérleyfið vegna olíuleitar á Drekasvæðinu verður undirritað í dag, þann 22. janúar, í Þjóðmenningarhúsinu. Undirrituð samtök telja að olíuleit á norðurslóðum stangist á við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og ógni lífríki á svæðinu.
Loftslagsbreytingar eru stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir. Fimmta skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út s.l. haust tekur af allan vafa um að loftslagsbreytingar eru raunverulegar og að þær stafa ótvírætt af mannavöldum.[1] Skýrslan bregður ljósi á hvernig síaukið magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar stendur í beinu sambandi við hækkandi hitastig, súrnun sjávar, hækkandi yfirborð sjávar, bráðnun ísmassa og vaxandi öfga í veðri. Þessar afleiðingar eru grafalvarlegar og hafa æ meiri áhrif á lífríki jarðar, þar með talið mannkynið og lífsafkomu þess.
Ein alvarlegustu áhrifin fyrir afkomu Íslendinga er súrnun sjávar vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið en hún mun hafa alvarleg áhrif á fiskistofna við strendur landsins. Þá er óupptalið það tjón sem olíuslys innan íslenskrar lögsögu myndi valda en margfalt erfiðara er að eiga við þess konar slys við kaldar og myrkar aðstæður á norðurslóðum, m.a. vegna efniseiginleika olíu.
Ríkisstjórn Íslands hreykir sér af umhverfisvænni orku; selur þá ímynd út á við á sama tíma og hún hvetur stórfyrirtæki til þess að leita að olíu til vinnslu innan íslenskrar lögsögu. Við mótmælum þessari mótsagnakenndu stefnu.
Aukinheldur snýr spurningin um olíuleit við Íslandsstrendur ekki einungis að efnahagslegum þáttum og öryggismálum. Hún krefst líka siðferðislegrar afstöðu til þess hversu réttlátt sé að græða á olíuvinnslu í heimi þar sem fólk þjáist vegna loftslagsbreytinga, sérstaklega lægri stéttir, konur og íbúar þróunarlanda. Hins vegar hefur lítil sem engin umræða verið um siðferðislegar hliðar málsins. Þessum skorti á siðferðislegri umræðu mótmælum við einnig.
Undirrituð samtök krefjast þess að ríkisstjórn Íslands og Alþingi hætti tafarlaust við allar áætlanir um vinnslu olíu og gass innan efnahagslögsögu landsins. Íslensk stjórnvöld myndu með því sýna ábyrgð og senda skýr skilaboð um allan heim að Ísland ætli sér að vera í fararbroddi í loftslagsmálum.
Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Breytendur – Changemaker Iceland, Grugg – vefrit um umhverfisvernd, Eldvötn, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Landvernd, Loftslag.is, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Nemendafélagið Gaia (HÍ), Ungir umhverfissinnar
[1]Skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar má nálgast hér: http://www.ipcc.ch/report/ar5/wg1/#.Ut5J9mTFJPN.
Kort af Drekasvæðinu frá Orkustofnun.
Birt:
Uppruni:
Náttúruverndarsamtök ÍslandsBreytendur
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi
Ungir umhverfissinnar
Loftslag.is
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Framtíðarlandið
Gaia - félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands
Fuglavernd - Fuglaverndarfélag Íslands
Landvernd
Tilvitnun:
NA „Yfirlýsing um stefnu Íslands í olíumálum“, Náttúran.is: Jan. 22, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/01/22/yfirlysing-um-stefnu-islands-i-oliumalum/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.