Vistvæn jól - er hugtak sem farið er að nota yfir það þegar að ekki er hvað sem er keypt, notað og hent án tillits til raunverulegra nota, eyðslu, mengunar eða endurnýtanleika, til að halda jól. Nútíma jól kalla á óstjórnlegt taumleysi í innkaupum þar sem hin ímyndaða þörf er látin gnæfa yfir afleiðingarnar. Með hugtakinu „vistvæn jól“ er verið að benda á að hægt sé að fara aðrar leiðir til að halda gleðileg jól og að hömlulaus efnisneysla sé ekki nauðsynleg til að skapa hátíðleika. Meðvituð umfjöllun virkar eins og hvert annað nám, hún opnar augu okkar fyrir því sem er að gerast. Allar tillögur um hvað hægt sé að gera til að halda jól á umhverfismeðvitaðan hátt eru velkomnar í jóla-sokkinn. Leyfðu okkur að heyra góða hugmynd og við komum henni umsvifalaust á framfæri hér á vef Náttúrunnar.

Jóla-sökkerinn er aftur á móti staður þar sem hægt að setja inn allt sem þykir beinlínis umhverfisskaðlegt við jólahald og hægt er að benda á að varast. Takið þátt, það borgar sig. Munið að láta helst nafn, símanúmer og rétt netfang fylgja. Á Þorláksmessu verður heppinn þátttakandi dreginn úr sokknum/sökkernum og fær vistvæna jólagjöf frá Náttúrunni.

Verkefnið „Vistvernd í verki“ hvetur til vistvæns jólahalds. Einnig er á heimsíðu Vistverndar í verki ótal upplýsingar um leiðir til vistvænna jólahalds, sjá. Stefán Gíslason hjá Staðardagskrá 21 hefur um árabil einnig verið ötull talsmaður vistvænna jóla og hefur miðlað hugmyndum sínum bæði í útvarspsþáttum sem og á öðrum vettvangi. Stefán rekur einnig Umhverfsiráðgjöf Íslands (UMÍS/Environice) sem aðstoðar m.a. fyrirtæki og sveitarfélög við framkvæmd umhverfisstefnumörkunar.

 

 

Birt:
Dec. 9, 2005
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Minna vistspillandi jólahald (stundum kallað „vistvæn jól“)“, Náttúran.is: Dec. 9, 2005 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/22/vistvaent_jolahald/ [Skoðað:May 21, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 16, 2007

Messages: