Dagur umhverfisins er tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni í ár

Dagur umhverfisins er haldinn 25. apríl ár hvert en þann dag árið 1762 fæddist Sveinn Pálsson, fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Hann var einna fyrstur til að hvetja til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi og orðaði þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun. Í ár verður dagurinn tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni.

Viðburðir í tengslum við dag umhverfisins:

Sunnudagurinn 25. apríl

 • Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Kuðungurinn,
  Varðliðar umhverfisins og náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti. Umhverfisráðherra mun einnig opna nýja útgáfu af vefnum náttúran.is. Þjóðmenningarhúsinu kl. 12:00.
 • Gönguferð í kringum Reykjavíkurtjörn og Vatnsmýri undir leiðsögn Fuglaverndar og Félags umhverfisfræðinga. Fræðsla um líffræðilega fjölbreytni í og við tjörnina, þar á meðal fuglalíf og gróður. Lagt af stað frá Norræna húsinu kl. 13:00 og 15:00.
 • Tilraunalandið fyrir börn og unglinga í Norræna húsinu. Vísindin lifna við í Vatnsmýrinni. Markmið sýningarinnar er að kynna og kanna undraheima vísindanna. Opið 12:00 til 17:00.
 • Dr. Bæk skoðar og vottar reiðhjól, hjólreiðaráðgjöf og þrautabraut á vegum Landsamtaka hjólreiðamanna fyrir utan Norræna húsið frá 12:00 til 16:00.
 • Ljósmyndasýning, býflugur og börn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Vettvangsferð með Tómasi Ó. Guðmundssyni býbónda þar sem hann kynnir gesti fyrir drottningunni, þernum hennar og lötu druntunum. Ljósmyndasýning um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands.
 • Umhverfisleikir fyrir alla fjölskylduna í Grasagarði Reykjavíkur frá 11:00 til 13:00. Öllum gefinn kostur á að skoða, hlusta og lykta af lífinu með því að taka þátt. Áhersla lögð á fuglalíf við tjarnir og öllum boðið að ganga eftir ,,ónáttúrulega stígnum“.
 • Græna ljósið býður í bíó á myndina Earth. Sýnd í Háskólabíói kl. 15:00. Miðar afhentir í miðasölu frá kl. 14:30 á meðan húsrúm leyfir.
 • Sveitarfélagið Árborg efnir til dagskrár í fuglafriðlandinu í Flóa kl. 14:00. Undirritaður verður nýr samningur við Fuglaverndarfélag Íslands um umsjón og uppbyggingu í fuglafriðlandinu og fuglaskoðunarskýli Fuglaverndar verður formlega tekið í notkun. Fuglavernd verður með leiðsögn og upplýsingar á staðnum. Umhverfis- og skipulagsnefnd Árborgar veitir fyrirtæki umhverfisverðlaun.

Laugardagurinn 24. apríl

 • Undur og stórvirki. Líffræðileg fjölbreytni Íslands, náttúra og náttúruöfl, auðlindir og umhverfi, dýr og plöntur, vatn, eldur og ís. Sérfræðingar Háskóla Íslands á sviði náttúru- og jarðvísinda segja frá í máli og myndum, rannsóknastofur verða opnar og fjölbreytni í fyrirrúmi. Dagskrá fyrir alla fjölskylduna frá kl. 11-15.
 • Náttúru- og umhverfisverndarsamtök á Íslandi boða til náttúruverndarþings í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð kl. 10:00-15:30. Hér má nálgast dagskrá þingsins.

Viðburðir á vegum grunnskóla sem umhverfisráðuneytið hefur fengið tilkynningar um:

 • Í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Ólafsvík, vinna nemendur ýmis verkefni þann 23. apríl. Meðal annars á að þrífa skólalóðina, týna rusl í grenndarskógi og fjöru við Ennisbraut og reita sinu, mála vinasól og parísa á skólalóð og vinna úr söfnun einnota umbúða og könnun um notkun innkaupaplastpoka. Þá munu nemendur grunnskólans búa til skilti fyrir sölubása í matvöruverslunum bæjarins þar sem nemendur munu selja margnota innkaupatöskur sem þeir hafa saumað úr gömlum gallafatnaði.
 • Í Hofsstaðaskóla taka allir nemendur þátt í fjölbreyttum umhverfisverkefnum dagana 19. til 30.  apríl.   Allir bekkir eru hvattir til að vera með fjölbreytta útikennslu  og fimmtudaginn 29. apríl hefja allir nemendur skóladaginn  úti. Í tengslum við  listadaga í Garðabæ og þemavinnu um umhverfismál í 4. bekk mun árgangurinn  vinna að umhverfislistaverkefni úr tilfallandi efnivið. Nemendur í 4. – 7. bekk geta tekið þátt í umhverfisvefrallý, þar sem m.a. er spurt um ýmislegt er tengist umhverfismálum skólans og Garðabæjar. Einnig verða sýndar fræðslumyndir og nemendur taka þátt í umræðum er tengjast umhverfismálum.
Birt:
April 19, 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Dagur umhverfisins 2010“, Náttúran.is: April 19, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/04/19/dagur-umhverfisins-2010/ [Skoðað:Jan. 28, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: