Svifryk orðið gífurlegt vandamál í Reykjavík
Svifryk var mælt yfir umhverfismörkum í Reykjavík föstudaginn 02. desember. Búist er við kyrru og þurru veðri um helgina sem bætir ekki ástandið. Þó er ekki talað um „hættuástand“, þó er víst varhugavert fyrir fólk með viðkvæm öndunarfæri að vera nærri umferðaræðum. Spurning hvort að skilaboð af þessu tagi séu réttlætanleg. Hvaða áhrif getur svifryk haft á öndunarfæri, er forsvaranlegt að halda öðru fram en að ástandið sé heilsuspillandi öllum sem anda. Bílaflotinn stækkar óðum og nagladekki spæna upp göturnar en mjög stórum hóp ökumanna finnst það ekki koma sér neitt við. „Umhverfi“ er ekki bara eitthvað annað en við sjálf, það hverfist reyndar um okkur en er líka hluti af okkur sjálfum. Kannski þarf að koma til gífurlega sterk auglýsingaherferð til að ná til fólks með þetta vandamál. Hægt er að fylgjast með loftgæðamælingum í Reykjvík á vef Umhverfisstofnunar.
Myndin er tekin þann 02.11.2005 kl. 16:00 í Elliðaárdalnum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
*Hvaða dekk duga best í hálku?
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er öryggið hvað mest á nagladekkjum ef hemlað er á svelli*, þó er örlítill munur á hemlunarvegalengd nagladekkja annars vegar og loftbóludekkja hins vegar.
Er ekið er á nagladekkjum á 40 km/klst. stöðvast bifreiðin eftir 43,42 m. við hemlun, á 60 km/klst. stöðvast hún eftir 88,22 m. Á loftbóludekkjum stöðvast bifreið á 40 km /klst. eftir 43,22 m. við hemlun, á 60 km/klst. eftir 96,67 m. Harðkornadekk gefa eftirfarandi niðurstöður: Við 40 km/klst. stöðvast bifreiðin eftir 64,55 m. við hemlun, á 60 km/klst. eftir 122,28 m. Á ónelgdum vetrardekkjum stöðvast bifreið á 40km/klst. hraða eftir 64,88 m. við hemlun, á 60 km/klst. eftir 133,00 m.
Þessar aðstæður eru þó ekki einu aðstæðurnar sem keyrt er í á vetrum og sjaldan sem að nagladekk eða loftbóludekk eru algerlega nauðsynleg í umferðinni. Þó kemur það fyrir og verður því hver fyrir sig að sjálfsögðu að vega og meta aðstæður og ákveða hvaða dekk eru nauðsynleg akstursleiðum- og venjum til að hámarka öryggið. En auðvitað er hægt að skipta um dekk og engin ástæða til að keyra um á nagladekkjum í langvarandi hita og rigningu.
*Athugið að tölurnar hér að ofan eiga aðeins við þegar hemlað er á svelli.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Svifryk orðið gífurlegt vandamál í Reykjavík“, Náttúran.is: Dec. 3, 2005 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/22/svifryk_vandamal/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 4, 2007