Á vef Flóahrepps segir:

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 14. nóvember s.l. voru lagðar fram tvær tillögur að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps, tillaga A og tillaga B sem kynntar voru á opnum fundi í Þjórsárveri 25. júní s.l.

Tillaga A gerir ráð fyrir hugsanlegri Urriðafossvirkjun en tillaga B gerir ekki ráð fyrir virkjun.

Á undanförnum mánuðum hefur sveitarstjórn Flóahrepps aflað sér upplýsinga og gagna um fyrirhugaða Urriðafossvirkjunar í Flóahreppi og hugsanlegar afleiðingar slíkra framkvæmda.

Á fundi sveitarstjórnar þann 2. júlí 2007 samþykkti sveitarstjórn að fresta ákvörðun um tillögu til auglýsingar að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps þar til fyrir lægju nánari upplýsingar um áhættu af hugsanlegri Urriðafossvirkjun.

Sveitarstjórn lagði á sama fundi áherslu á að ljúka þyrfti samningaviðræðum milli fulltrúa Landsvirkjunar og Flóahrepps, en þær viðræður hófust í janúar á þessu ári þar sem unnið hefur verið að því að fá fram hvaða hugsanlegar mótvægisaðgerðir Landsvirkjun muni ráðast í, ef af framkvæmdum hennar við Urriðafossvirkjun verður í nánustu framtíð.

Í viðræðum við Landsvirkjun lagði sveitarstjórn áherslu á eftirfarandi atriði:

 • Að hækkun vatnshæðar í Þjórsá getur haft áhrif á vatnsból og vatnsverndarsvæði sveitarfélagsins.
 • Þar sem rennsli um Urriðafoss verður stórlega skert þarf að auka möguleika til annarrar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
 • Lágmarka þarf áhrif virkjunar á lífríki Þjórsár og tryggja þarf að laxfiskar eigi sömu búsetumöguleika í Þjórsá og verið hefur og ganga þeirra upp ána verði tryggð.
 • Tryggja þarf að stíflumannvirki verði hönnuð með þeim hætti að hugsanlegir jarðskjálftar á svæðinu valdi ekki tjóni umfram þá áhættu sem er fyrir hendi í dag.
 • Endurbætur á GSM símakerfi.
 • Tryggja þarf að Urriðafossvirkjun hafi ekki áhrif á þá stefnu sveitarstjórnar að styrkja landbúnað á svæðinu.

Viðræðum við Landsvirkjun er lokið með samkomulagi sem gerir ráð fyrir eftirfarandi mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar:

 • Landsvirkjun mun kosta lögn nýrrar aðveitu vatnsveitu sveitarfélagsins, nægilega miðlun vatnsins með tilliti til dreifingar um allt sveitarfélagið og byggingu miðlunartanks ef með þarf.
 • Endurbyggingu vegakafla frá þjóðvegi 1 um sveitarfélagið að Gaulverjabæ, þ.e. Urriðafossvegar og Hamarsvegar. Landsvirkjun mun sjá til þess að þeir vegir verði endurbyggðir með bundnu slitlagi. Uppbyggingu á aðstöðu í landi Þjótanda þar sem tekið verður á móti ferðamönnum og öðrum til kynningar á virkjunum á vatnasviði Þjórsár sem ný st getur sveitarfélaginu til kynningar á ferðaþjónustu og ferðamöguleikum á svæðinu.
 • Veiðimálastofnun hefur unnið að rannsóknum s.l. fjögur ár á grunnástandi lífríkis í Þjórsá. Í ljósi niðurstaðna þeirra rannsókna mun Landsvirkjun útfæra nánar og grípa til þeirra mótvægisaðgerða sem þar verða lagðar til í samráði við sveitarstjórn til að draga úr áhrifum virkjunar á lífríki Þjórsár.
 • Gerð áhættumats sem gerir ráð fyrir að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkja verði ekki meiri en talin er ásættanleg vegna ofanflóða.
 • Endurbætur á GSM símakerfi í sveitarfélaginu þannig að gott farsímasamband verði í sveitarfélaginu með uppsetningu ný s sendis neðarlega í sveitarfélaginu og styrkingu núverandi senda ef með þarf.
 • Ýmis sérverkefni tengd vatnsöflunarmálum.

Sveitarstjórn mun óska eftir því við þingmenn Suðurkjördæmis að þeir beiti sér fyrir því að vegaframkvæmdir samkvæmt samkomulagi við Landsvirkjun hafi ekki áhrif á þær framkvæmdir sem nú þegar eru á samgönguáætlunum.

Áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar var kynnt fyrir sveitarstjórn Flóahrepps þann 10. október s.l. og íbúum sveitarfélagsins á almennum íbúafundi í Félagslundi 18. október. Einnig liggur fyrir fundi minnisblað fyrir sveitarstjórn vegna áhættumats þar sem vísað er til forsendna og heimilda við gerð þess.

Áhættumat vegna framkvæmda við hugsanlega virkjun er hluti af hönnun virkjana sem byggt er á kröfum í reglugerðum og stöðlum um álagsforsendur og öryggi.

Áhættumatið fólst m.a. í því að yfirfara hönnunarforsendur mannvirkjanna, skoða staðhætti, jarðfræði svæðisins og flóðasögu, yfirfara varúðarráðstafanir svo sem stíflueftirlit og meta líkur þess að mannvirkin verði fyrir tjóni og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér.

Niðurstöður áhættumats leiða í ljós að útbreiðsla flóðs vegna stíflurofs í farvegi Þjórsár er afar takmörkuð og að áin helst að mestu í farvegi sínum.

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkir samhljóða sbr. 17. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 að auglýsa tillögu A að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun.

Samþykktin er byggð á þeim forsendum að staðaráhætta við Þjórsá vegna hugsanlegra flóða stenst viðmið sem gefin eru í reglugerð 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða eins og tilskilið var í mati á umhverfisáhrifum og úrskurði umhverfisráðherra vegna virkjananna og því að samkomulag hefur náðst við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir.

Sveitarstjórn samþykkir einnig að setja þá skilmála í greinargerð með aðalskipulagstillögu að hönnun virkjunar miðist við að yfirborð Heiðarlóns verði að hámarki 50 metrar y.s. eins og kynnt var í áhættumati, að lón verði einungis í árfarvegi og að farið verði að skilyrðum Umhverfisráðuneytis dags. 27. apríl 2004 vegna mats á Urriðafossvirkjun.

Samþykkt sveitarstjórnar um auglýsingu á tillögu A að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps felur ekki í sér ákvörðun um framkvæmdaleyfi vegna Urriðafossvirkjunar.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að Landsvirkjun nái samningum við landeigendur verði af fyrirhugaðri virkjun.

Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi samkomulag sveitarstjórnar Flóahrepps og Landsvirkjunar um mál er varða byggingu og rekstur Urriðafossvirkjunar vegna aðalskipulags dags. 19. júlí 2007.

Einar Haraldsson óskaði eftir bókun þess eðlis að hann væri hugsanlega vanhæfur og vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Birt:
Nov. 15, 2007
Höfundur:
Flóahreppur
Tilvitnun:
Flóahreppur „Flóahreppur kynnir aðalskipulag „með virkjun““, Náttúran.is: Nov. 15, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/15/aoalskipulag-kynnir-aoalskipulag-meo-virkjun/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: