Orka ljóssins
Sumarið er enn og á að vera uppspretta hugmynda. Það skiptir engu máli þótt við framkvæmum ekki allt sem okkur dettur í hug og komum ekki öllu í verk sem æskilegt væri. Það á ekki að vera eftirsjá, aðeins gleði. Það er sjálf frumlífsorkan í matnum sem nærir okkur. Orkan í fæðunni kemur frá sólarljósinu, sem inniber allt litrófið, og má þá ekki þegar grannt er skoðað, eins rölta úti í náttúrunni og njóta orkunnar frá bylgjum og tíðni ljóssins, eins og að fara flóknari leiðina að taka hana inn í gegnum fæðuna? Að ganga berfættur í grasinu gefur okkur orku frá plöntunum gegnum iljarnar. Þú veist það – sagði Hallgrímur Magnússon læknir, þegar hann tyllti sér niður hjá mér einn sumardag og við vorum að ræða litina, plönturnar og orku sólarljóssins og drekka te úr handgerðum japönskum bollum – jurtirnar vaxa fyrir sig, en ekki fyrir okkur. Nei, ég hafði ekki beinlínis hugleitt þetta, eða séð það út frá því sjónarhorni.
Grösin eru að safna til sín þeim næringarforða sem þau þarfnast til að blómgast og mynda fræ og viðhalda þannig tegundinni. Þær plöntur sem vita að þær eru að fara beint á markað og eru píndar til að vaxa hratt hafa ekki í sér sömu drift til að vinna vítamín og steinefni úr sólarljósinu og jarðveginum. Þess vegna eru markaðsframleiddar plöntur að verða vítamínlausar. Þetta var inntakið í því sem Hallgrímur sagði, og hann bætti við – að vonandi myndi mannkynið læra í framtíðinni að nýta sér orkuna úr sólarljósinu gegnum hvirfilstöðina svo að líkaminn þarfnaðist minni fæðu í því formi, sem við tökum hana núna. Þetta er spennandi framtíðarsýn en ljóst að margt verður að ske ef við eigum að fá að njóta þeirrar útópísku Paradísar þar sem ljónið og lambið liggja hlið við hlið og enginn ræðst á annan sér til matar.
Ljósmynd: Blóðberg, mosi o.fl. jurtir á Rauðhólum, ljósm. Árni Tryggvason
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Orka ljóssins“, Náttúran.is: June 6, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/08/orka-ljssins/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 8, 2007
breytt: June 6, 2014