Það eru til margar tegundir af salati. Það borgar sig að sá mismunandi tegundum. Þá fáum við ekki bara fjölbreytt bragð heldur líka mismunandi litbrigði og áferð í salatskálinni og tegundirnar hafa mismunandi vaxtarskeið og verjast áreitum misjafnlega vel.

Þegar skrifað er um blaðsalat stendur ævinlega – þvoið svo vel eftir að það hefur verið tekið upp. Það er gaman að taka inn jurtir og þurfa ekki að þvo þær. Finna rigninguna á blöðunum þegar blautt er og hrista bara vatnið af. Svo má líka taka salat upp þegar þurrt er og ekki er alltaf nauðsynlegt að bleyta það, ef jurtirnar fara rakleitt á borðið. Þetta er sama spurning og hvort rétt sé að þvo undirskálar eftir kaffiboð ef þær eru hreinar. En óhreinindi eða smádýr eru ekki velkomin, hvorki í salatskálinni né á diskinum.

Sum ár eru sniglaár, þá þarf að losa um hvert einstakt blað og snúa því vandlega undir vatnsbununni því sniglar geta borað sér lygilega langt inn í salathöfuð og falið sig í blaðfellingum. Að finna snigil eða græna blaðlús á diskinum sínum einu sinni á ævinni er einu sinni of oft. Svo getur mold hafa slest upp á salatið þegar vökvað er eða leiðindi sest inn í hausana, önnur en sniglar. En þau sumur, sem salatið er hreint og þriflegt, þá megum við njóta þess að rífa það beint í skálina. Rífa en helst ekki skera ef tíminn er nægur.

Hægt er að brjóta epli í tvennt með því að rispa með nöglinni frá stilk og niður og aftur upp í hring og þvinga svo helmingana sundur með því að beita efsta parti lófanna. Sama lögmál og þegar viður er klofinn með öxi. Öxinni er höggvið í endann og settir fleygar og viðurinn klofinn en sárið er ekki eggslétt, eins og þegar sagað er, heldur lifandi og skilur sig eftir mólekúlunum sem mynda viðinn. Því er betra að rífa salatblöð en skera, svo eindirnar haldi sér. Blöðin verða meira lifandi þegar þau eru rifin en þegar skorið er þvert yfir þau með hníf. Salat, segir Eggert, var til forna borið fram á undan máltíðum til að auka matarlyst, og á eftir máltíðum bæði til að sporna við því að ölið færi illa í mannskapinn og stuðla að því að menn sofnuðu vært. Enda er salat talið kælandi og undir áhrifum mánans. Hann vill hafa „heitar“ kryddjurtir með salatinu.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Myndin er af salati í Skaftholti. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
June 20, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Salat“, Náttúran.is: June 20, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/salat/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: June 20, 2014

Messages: