Aukinn kraftur færðist í baráttuna fyrir verndun Þjórsár með hátíðarsamkomu sem haldin var í Fríkirkjunni í Reykjavík um helgina, þar sem fullt var út úr dyrum. Mikill stuðningur fólks af öllum sviðum þjóðfélagsins sýnir að fólki þykir vænt um landið sitt og vill vernda það gegn ágangi Landsvirkjunar. Það er ekki flokkspólitík þótt reynt sé að halda því fram.

Sól á Suðurlandi þakkar öllu því góða fólki sem styður verndun Þjórsár með ráðum og dáð. Hugheilar þakkir fá listamenn, fræðimenn og aðrir sem gerðu hátíðina í Fríkirkjunni að veruleika og góðir gestir sem hátíðina sóttu, þar á meðal stjórnmálamenn úr öllum flokkum, auk fulltrúa fjölmargra náttúruverndarsamtaka. Síðast en ekki síst er Fríkirkjunni í Reykjavík þakkað fyrir sýndan skilning á nauðsyn þess að fátæk grasrótarsamtök þurfi bæði húsaskjól og frið til að rödd þeirra fái heyrst, en raddir valdsins hljómi ekki einar. Sól á Suðurlandi stefnir að frekari kynningu á náttúruperlum við Þjórsá þegar vorar.

Ályktun fundarins:

Fundur Sólar á Suðurlandi í Fríkirkjunni í Reykjavík, haldinn 17 febrúar, biður þess að Þjórsá fái áfram að streyma óáreitt um byggðir Suðurlands. Fjögurhundruð manna fundur haldinn í Árnesi fyrir rúmu ári gaf tóninn um þær tilfinningar sem unnendur Þjórsár og sunnlenskrar náttúru bera í brjósti. Skþr vilji þeirra hefur ekki verið brotinn á bak aftur.. Hann eflist við hverja raun. Almenningur á Íslandi tekur því ekki þegjandi að veist sé að dýrmætustu perlum landsins eins og raunin er við Þjórsá.

Fundurinn skorar á Landsvirkjun að stöðva þegar í stað undirbúning virkjana í neðri hluta Þjórsá. Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um að eignarnámi verði hvergi beitt við Þjórsá. Einnig er skorað á ríkisstjórnina að taka af skarið endanlega um að Þjórsá verði ekki virkjuð frekar. Fundurinn biður þess að sveitarstjórnir á Suðurlandi láti ekki glepjast af gylliboðum um fjárframlög og fyrirgreiðslur sem ekki ætti að vera á valdi orkufyrirtækis að bjóða. Loks þakkar fundurinn öllum sem stutt hafa við baráttuna til verndar Þjórsá á síðustu misserum. Fundurinn þakkar líka heimamönnum á bökkum Þjórsár sem staðið hafa vaktina gegn ásælni Landsvirkjunar í mörg ár.

Myndin er tekin af sýningu verks eftir Rúrí á fundinum í Fríkirkjunni. Tvær Fjallkonur halda uppi tjaldi sem á er varpað myndskeiðum af dynjandi vatnsföllum og straumi í Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Feb. 20, 2008
Höfundur:
Sól á Suðurlandi
Tilvitnun:
Sól á Suðurlandi „Orka Þjórsárs virkjuð á nýjan hátt“, Náttúran.is: Feb. 20, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/02/20/orka-thjorsars-virkjuo-nyjan-hatt/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: